Fréttasafn

Öskudagur 2022 á Hrafnistuheimilunum

 

Það var heldur betur glatt á hjalla á Hrafnistuheimilunum í gær, á sjálfan Öskudaginn, þegar starfsfólk mætti til vinnu uppáklætt í alls konar búninga líkt og hefð er fyrir á Hrafnistu á þessum degi. 

Meðfylgjandi myndir voru teknar í gær á Hrafnistuheimilunum og tala þær sínu máli.  

 

Lesa meira...

Fordæmalausir tímar - afburða árangur

 

Í dag birtist eftirfarandi grein eftir Björn Bjarka Þorsteinsson formann Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og framkvæmdastjóra Brákarhlíðar.

Fordæmalausir tímar - afburða árangur

Nú eru tvö ár frá því að við starfsmenn hjúkrunarheimila og annarra stofnana í heilbrigðiskerfinu tókumst á við fyrstu aðgerðir okkar til varnar heimilisfólki hjúkrunarheimila landsins og öðrum sem þiggja þjónustu velferðarkerfisins gagnvart Covid-19. Allt frá fyrstu stundu þessa fordæmalausa verkefnis okkar frábæra starfsfólks hafa starfsmannahópar heimila og stofnana allt í kringum landið staðið saman öll sem eitt. Í upphafi faraldursins höfðum við ekki undan að læra ný hugtök og skilgreiningar en sum þeirra hafa fest betur í huga okkar en önnur. Fordæmalausir tímar er eitt þeirra.

Í upphafi marsmánaðar 2020 tóku hjúkrunarheimili landsins stóra ákvörðun með sameiginlegum hætti; skellt var í lás og allar heimsóknir bannaðar til heimilisfólks tímabundið. Aldrei hefði undirrituðum dottið það í hug að til þess háttar aðgerða yrði nokkurn tíma gripið en aftur, aðstæður voru fordæmalausar og því var gripið til fordæmalausra ráðstafana. Sama var upp á teningnum víðar í starfsemi þeirri sem aðildarfélög innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu standa fyrir. Nýjar áskoranir biðu meðal annars í dagdvölum, dagþjálfunum og endurhæfingastarfsemi, sums staðar þurfti að loka, annars staðar að hliðra verulega til og allt var þetta gert af fullkomnu æðruleysi í þágu þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda og þeim til varnar. Starfsfólk sýndi einstaka fórnfýsi á allan hátt, skermaði sig af í mörgum tilvikum í sínum frítíma og aftur, allt í þágu fólksins sem treystir á þjónustu þeirra á degi hverjum.

Því miður náðu þessar hörðu aðgerðir ekki að koma alveg í veg fyrir að Covid-19 næði að höggva skörð í raðir heimilisfólks og það er afar þungbært. Engu að síður er ljóst að þær skiluðu ótvíræðum árangri í að lágmarka smitin eins og kostur var. Smit voru afar fá inni á hjúkrunarheimilum og hjá annarri starfssemi sem fyrirtæki í velferðarþjónustu veita meðan unnið var að því að efla varnir einstaklinganna með bólusetningu. Nú um stundir geisar veiran enn, en sem betur fer eru veikindin í flestum tilfellum mun mildari en þau voru fyrst í stað. Við Íslendingar stöndum vel heilt yfir og á erlendri grundu hefur verið tekið eftir hversu vel tókst til að standa vörð um íbúa á hjúkrunarheimilum. Við megum vera stolt af heilbrigðisstarfsfólkinu okkar og vil ég sérstaklega draga fram þátt starfsmanna fyrirtækja og stofnana innan raða Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Þá viljum við líka þakka sóttvarnaryfirvöldum og forráðafólki í heilbrigðiskerfinu fyrir það hve vel það stóð sig í sínum verkefnum.

Við forystufólk SFV höfum farið þess á leit við stjórnvöld að okkar fólk, sem hefur staðið vaktina með glæsibrag undanfarin tvö ár, verði umbunað fyrir fórnfýsi sína og afburða frammistöðu í fordæmalausum aðstæðum. Við trúum því og treystum að starfsfólki stofnana okkar og fyrirtækja verði umbunað líkt og hefur verið gert við a.m.k. hluta annarra heilbrigðisstarfsmanna. Aðildarfélög Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu og það er mikilvægt að okkar dýrmæta starfsfólk upplifi sig með þeim hætti, jafnt dags daglega sem og í fordæmalausum aðstæðum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Brákarhlíðar og formaður stjórnar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

 

 

Lesa meira...

Nýr aðstoðardeildarstjóri við sjúkra- og iðjuþjálfun Hrafnistu Sléttuvegi

 

Aðalheiður Þorsteinsdóttir iðjuþjálfi hefur verið ráðin aðstoðardeildastjóri við sjúkra- og iðjuþjálfun á Hrafnistu Sléttuvegi og hóf hún störf þann 1. mars sl.  Aðalheiður lauk B.Sc. námi í iðjuþjálfun frá Háskólanum á Akureyri 2021. Frá útskrift starfaði hún við iðjuþjálfunardeild Grensás. Með námi starfaði hún meðal annars á hjúkrunarsambýlinu Roðasölum og sem aðstoðarmaður iðjuþjálfa á Grensás.

Við bjóðum Aðalheiði velkomna í starfsmannahóp Hrafnistu.

 

 

Lesa meira...

Grímuskylda ennþá í gildi á Hrafnistuheimilunum

 

Kæru íbúar og aðstandendur,

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hafa stjórnvöld aflétt öllum sóttvarnartakmörkunum í samfélaginu frá og með miðnætti aðfaranótt 25. febrúar 2022. Það eru gleðitíðindi og vonandi til marks um að senn fari að hylla undir lok Covid farsóttarinnar í þeirri mynd sem við höfum tekist á við undanfarin tvö ár. Við vitum þó að veiran er hvergi nærri farin og búast má við fjölgun smita næstu vikur nú þegar öllum sóttvarnartakmörkunum í samfélaginu verður aflétt. Staðan hefur verið strembin undanfarnar vikur og enn er fjöldi íbúa og starfsmanna heimilanna að greinast með covid. Hrafnista eins og aðrar heilbrigðisstofnanir verður því að stíga varlega til jarðar þegar kemur að afnámi sóttvarnarreglna en mun leitast við að stíga ákveðin en örugg skref í þeim efnum á næstunni. Leiðarljósið er ávallt að standa vörð um þá þjónustu sem íbúar Hrafnistu þurfa á að halda.

Neyðarstjórn Hrafnistu hefur því ákveðið að áfram verða í gildi ákveðnar sóttvarnarreglur inn á heimilunum, en með ákveðnum breytingum þó:

  • Áfram mega tveir gestir koma að heimsækja íbúa hvern dag, en nú án allra aldurstakmarka.
  • Grímuskylda er ennþá í gildi á heimilum Hrafnistu og þurfa allir gestir að bera andlitsgrímu við komu á heimilin. Heimilt er að taka grímuna niður inn á herbergi íbúa vilji íbúi og aðstandendur það. Ekki er heimilt að vera með margnota grímur.
  • Áfram er ekki heimilt að nýta setustofur og borðstofur eininga/deilda til heimsókna né önnur alrými á heimilunum s.s. borðsali.
  • Eins og áður geta íbúar fariðút í garð og í gönguferðir með sínum nánustu og einnig í bílferðir eða heimsóknir. Reglur um fjöldatakmarkanir í slíkum ferðum detta út en fólk er beðið að gæta varúðar og huga vel að persónubundnum sóttvörnum.
  • Reglur tengdar aðstandendum sem dvalið hafa erlendis falla niður. 
  • Aðstandendur og aðrir gestir eru beðnir um að koma ekki í heimsókn inn á heimilin ef þeir finna fyrir einhverjum covid líkum einkennum eða einkennum annara umgangspesta (s.s. kvef, hósti, hiti, höfuðverkur, beinverkir, þreytu, kviðverki, niðurgang, uppköst o.fl.).
  • Við ákveðnar aðstæður gætu stjórnendur deilda/heimila þurft að grípa til hertari heimsóknarreglna í takmarkaðan tíma, en ávallt verður leitast við að veita þær undanþágur sem íbúar og aðstandendur óska eftir eins og hægt er.

 

Munið að sýna ýtrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Við þurfum jafnframt öll að hafa áfram í huga persónulegar sóttvarnir s.s. handþvott og handsprittun.

 

Kær kveðja,

Neyðarstjórn Hrafnistu

 

Bréf til íbúa og aðstandenda föstudaginn 25. febrúar 2022

 

 

Lesa meira...

Farið verður rólega í breytingar á heimsóknarreglum

Kæru íbúar og aðstandendur.

Neyðarstjórn Hrafnistu telur mikilvægt að fara rólega í breytingar á heimsóknarreglum, sérstaklega í ljósi þess að fjöldi íbúa á hjúkrunarheimilum landsins hefur verið að greinast undanfarið með Covid. Haft er að leiðarljósi að hægt sé að halda uppi þjónustu við íbúa Hrafnistu og draga úr líkum á að smit berist inn á heimilin með hag íbúanna í huga.

Heimsóknarreglur á Hrafnistu munu því enn um sinn vera þær sömu og undanfarið og eru þær áréttaðar hér:

  • Tveir gestir hafa leyfi til að heimsækja íbúa hvern dag.
  • Aðstandendur og gestir á aldrinum 0-30 ára– Eru beðnir um að koma ekki í heimsókn. Mjög mörg smit eru að greinast í þessum aldurshópi og margir hverjir í hópnum eru ekki bólusettir og því mun meiri líkur á að þeir smiti aðra.
  • Aðstandendur og gestir sem eru í smitgát eða sóttkví í samfélaginu eiga ekki að koma í heimsókn.
  • Grímuskylda – ALLIR gestir þurfa að bera andlitsgrímu við komu á heimilin. EKKI er heimilt að taka grímuna niður inn á herbergi íbúa. Ekki er heimilt að vera með margnota grímur.
  • Ekki er heimilt að nýta setustofur og borðstofur eininga/deilda til heimsókna né önnur alrými á heimilunum s.s. borðsali.
  • Íbúum er heimilt að fara út í garð og í gönguferðir með sínum nánustu og einnig er heimilt að fara með íbúa út af heimilinu í bílferðir eða heimsóknir.
  • Mikilvægt er að hafa í hugaað sem fæstir séu í þeim boðum sem íbúar heimilanna sækja utan þeirra (lög segja að hámarki 50 einstaklingar (börn eru þar meðtalin) sem gildir fyrir frískt fólk). Neyðarstjórnin biðlar til íbúa, aðstandenda og annarra gesta að fara ekki í stærri mannfagnaði eða aðrar samkomur með íbúa.
  • Fullbólusettir aðstandendur sem dvalið hafa erlendis – Þeim er heimilt komið í heimsókn eftir að hafa farið í skimun á landamærum og niðurstaða úr skimun er neikvæð ásamt því að þeir séu með öllu einkennalausir. Mikilvægt er samt að hafa samráð við stjórnendur deilda.
  • Óbólusettir aðstandendur sem eru að koma erlendis frá mega ekki koma í heimsókn inn á heimilin fyrr en 14 dagar eru liðnir frá heimkomu (undanþágu er hægt að fá í samráði við stjórnendur deildar ef um skyndileg veikindi/lífslokameðferð er að ræða hjá íbúa). 
  • Undanþága frá reglum um heimsóknir hverju sinn, er aðeins veitt við mikil veikindi íbúa og þarf leyfi frá vaktstjóra deildar.

Alls ekki koma í heimsókn ef:
a. Þú ert í sóttkví eða smitgát
b. Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku.
c. Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 10 dagar frá útskrift úr einangrun.
d. Þú ert með COVID-19 lík einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang, uppköst o.fl.).
e. Þú ert með einhver önnur almenn einkenni um veikindi.

 

Munið að sýna ýtrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Við þurfum öll að hafa í huga persónulegar sýkingavarnir s.s. handþvott og handsprittun.  

 

Kær kveðja,

Neyðarstjórn Hrafnistu

 

Bréf til íbúa og aðstandenda mánudaginn 7. febrúar 2022

 

 

Lesa meira...

Rótarýklúbburinn Hof færir Hrafnistu Ísafold nuddstól að gjöf

 

Rótarýklúbburinn Hof færði Hrafnistu Ísafold í Garðabæ nuddstól sem kemur til með að nýtast íbúum á heimilinu mjög vel.


Á myndinni eru frá vinstri: Helga Björk Jónsdóttir umboðsmaður íbúa og aðstandenda á Hrafnistu, Sara Pálmadóttir iðjuþjálfi, Hrönn Ljótsdóttir forstöðumaður Ísafoldar, Sigríður Björk og Stella Kristín sem afhentu gjöfina fyrir hönd rótarý.

 

Sjá nánari umfjöllun - Ísafold fékk nuddstól að gjöf frá Rótarýklúbbnum Hofi

 

 

 

Lesa meira...

Nýr aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á Mánateig og Sólteig Hrafnistu Laugarási

 

Ólöf Gunnhildur Gajardo Ólafsdóttir hefur verið ráðin aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á Sól- og Mánateig Hrafnistu Laugarási frá 14. febrúar. Gunnhildur lauk B.Sc. námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2014. Hún hefur starfað undanfarin ár m.a. á Ási í Hveragerði og á krabbameinsdeild og á mótttökugeðdeild Landspítalans. Hún hefur jafnframt stundað framhaldsnám í heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun við HA.

Við bjóðum Gunnhildi velkomna í starfsmannahóp Hrafnistu.

 

 

Lesa meira...

Nýr aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á Hrafnistu Nesvöllum frá 1. mars 2022

 

Sandra Kristinsdóttir hefur verið ráðin aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á Hrafnistu Nesvöllum frá 1. mars 2022 í afleysingu fyrir Sólrúnu Marý sem er á leið í leyfi. Sandra lauk B.Sc. námi frá Háskólanum á Akureyri árið 2019. Hún vann á geðdeild sjúkrahússins á Akureyri eftir útskrift og svo á bráðageðdeild LSH þar til hún hóf störf á Hrafnistu Nesvöllum sl. haust. Sandra stundar diplómanám í Stjórnun í heilbrigðisvísindum sem hún stefnir á að ljúka í vor.

 

 

Lesa meira...

Síða 18 af 175

Til baka takki