Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Skipurit Hrafnistu Skógarbæjar 1. september 2019

Þann 1. maí s.l. tók Hrafnista við daglegum rekstri hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar samkvæmt samstarfssamning við stjórn og eigendur Skógarbæjar. Þrátt fyrir að í upphafi sé aðeins um tímabundinn samning sé að ræða, líta báðir samningsaðilar svo á að um langvarandi og farsælt samstarf verði milli aðila. Hrafnista hefur nú starfrækt heimilið í 4 mánuði og telur nú tímabært að gefa út formlegt skipurit Hrafnistu Skógarbæjar.

 
Stjórnendum fækkar
Samhliða því hefur verið ákveðið að gera nokkrar breytingar á skipulagi stjórnunar á heimilinu. Þær felast í því að stjórnendum í daglegri starfsemi heimilisins verður fækkað, verða sjö í stað níu áður. Jafnframt eru töluverðar breytingar á samsetningu staða innan stjórnendahópsins. Þessar breytingar eru gerðar til þess að auka enn frekar þjónustu og gæði með því að gera starfsemina markvissari, bæði með hag íbúa og starfsfólks í huga. Einnig er mikill áhugi á að prófa spennandi nýjungar í skipulagi hjúkrunar og endurhæfingar enda mikið af framsæknu fólki í starfsmannahópi Skógarbæjar.
 
Forstöðumaður stýrir daglegri starfsemi
Rebekka Ingadóttir, sem tók við daglegri stjórnun Skógarbæjar þann 1. maí s.l., verður forstöðumaður heimilisins og æðsti stjórnandi daglegrar starfsemi. Hennar starf heyrir undir forstjóra Hrafnistu til samræmis við forstöðumenn annara Hrafnistuheimila en forstjóri er þá jafnframt framkvæmdastjóri Skógarbæjar. Starf framkvæmdastjóra Skógarbæjar og starf hjúkrunarforstjóra Skógarbæjar hafa nú verið lögð niður í núverandi mynd og ekki verður ráðið aftur í þau störf.
 
Breytingar í eldhúsi og skrifstofu
Vegna breytinga á skipulagi í eldhúsi hefur verið ákveðið að leggja niður starf yfirmanns í eldhúsi og mun Olga Gunnarsdóttir snúa til annarra spennandi verkefna fyrir Hrafnistuheimilin. Jafnframt hefur Elín María Jóhannsdóttir, matartæknir flutt starfsemi sína í aðaleldhús Hrafnistuheimilanna þar sem hennar starfskraftar nýtast í spennandi starfi í þágu allra Hrafnistuheimilanna.
 
Starf ræstingastjóra (hlutastarf) verður tekið upp en hlutverk hans er að annast daglega stjórnun þrifa og ræstingamála heimilisins í samræmi við verkferla og gæðakröfur heilbrigðissviðs Hrafnistu og kröfur til heilbrigðisstofnanna. Helga R. Jónsdóttir hefur verið ráðin í þetta mikilvæga starf en hún á að baki langan og farsælan starfsferil innan Skógarbæjar.
 
Starf launafulltrúa verður sameinað inn í bókhalds- og launadeild Hrafnistu og mun Hulda Gísladóttir launafulltrúi Skógarbæjar, færa aðsetur sitt úr Skógarbæ inn í bókhalds- og launadeild þann 1. september.n.k.
 
Skipulagsbreyting stjórnunar sjúkraþjálfunar og iðjuþjálfunar
Ákveðið hefur verið að fara í skipulagsbreytingar á starfsemi á stjórnun sjúkraþjálfunar, iðjuþjálfunar og félagsstarfs. Stjórnun þessara þjónustuþátta verður á einni hendi og verður Lilja Dögg Vilbergsdóttir sameiginlegur deildarstjóri sjúkraþjálfunar og iðjuþjálfunar. Með þessu er ætlunin að samræma og samnýta sem allra best starfskrafta þeirra starfsmanna sem sinna endurhæfingu og félagslegu starfi í þágu íbúanna. Sambærileg breyting var nýlega framkvæmd á Hrafnistu Ísafold í Garðabæ og hefur það gefið góða raun.
 
Skipulagsbreyting í hjúkrun og fækkun hjúkrunarstjórnenda
Jafnframt hefur verið ákveðið að fara i umfangsmiklar skipulagsbreytingar á stjórnun og skipulagi hjúkrunar. Skipulagsbreytinging felst í því að auka verulega áherslu á einstaklingshæfða hjúkrun í því skyni að efla gæði í þjónustu við íbúa Hrafnistu í Skógarbæ. Þessar áherslubreytingar eru gerðar í samræmi við ábendingar frá Embætti landlæknis sem komu fram fyrir nokkru við úttekt á starfsemi Skógarbæjar. Þessu fylgja nýjar starfslýsingar og áherslur fyrir alla hjúkrunarfræðinga heimilisins. Auk þess verður mótað starf hópstjóra sem eru þá aðrir starfsmenn en hjúkrunarfræðingar.
 
Núverandi störf deildarstjóra hjúkrunar verða lögð niður og í staðinn munu tveir hjúkrunarstjórar með áherslu á mannauðsmál annars vegar og gæðamál hinsvegar, stýra daglegri starfsemi við hjúkrun heimilisins. Aðstoðardeildarstjórum hjúkrunar verður fækkað úr fjórum í tvo aðstoðarhjúkrunarstjóra.
 
Í starf hjúkrunarstjóra og mannauðsmála hefur verið ráðin Sunneva Lindudóttir Þórisdóttir sem áður var annar deildarstjóra hjúkrunar í Skógarbæ. Í starf hjúkrunarstjóra og gæðamála hefur verið ráðin Sandra Eysteinsdóttir en hún starfaði áður sem verkefnastjóri á heilbrigðissviði Hrafnistu og hefur mikla reynslu af stjórnun.
 
Störf aðstoðarhjúkrunarstjóra, hafa verið boðin Hannah Priscilla Tan og Leila Floresca Esteban, sem báðar eiga langan starfsaldur og farsælan feril í Skógarbæ.
 
Skógarbær - Skipurit 30.8.2019
 
Breytingar á skipulagi og stjórnun eru alltaf erfiðar og óþægilegar, sérstaklega þegar færa þarf fólk til í starfi. Þær geta hins vegar verið mikilvægar þegar til lengri tíma er litið.
 
Öllum stjórnendum og starfsmönnum sem eiga hér í hlut var boðin vinna áfram á Hrafnistuheimilunum; flestum í Skógarbæ en einnig á öðrum Hrafnistuheimilum. Þetta á þó ekki við um fráfarandi framkvæmdastjóra sem lét af störfum í kjölfar samnings Skógarbæjar og Hrafnistu í vor. Trúnaðarmönnum og starfsfólki Skógarbæjar voru kynnt þessi mál á fundum fyrr í dag.
 
Við óskum nýjum stjórnendum Skógarbæjar velfarnaðar sem og þeim stjórnendum og starfsmönnum sem færast í ný störf við þessar breytingar.
 
Við erum sannfærð um að þetta eiga eftir að verða íbúum og starfsfólki Skógarbæjar til heilla!
 
Bestu kveðjur,
Pétur
 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur