Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 19. maí 2017 - Pétur Magnússon, forstjóri

Old letter
Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 19. maí 2017.

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Guðmundur kveður og Hálfdan tekur við

Eins og fram hefur komið, hefur Guðmundur Hallvarðsson, sem verið hefur formaður stjórnar Sjómannadagsráðs og þar með stjórnarformaður Hrafnistu frá árinu 1993, látið af störfum. Hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs á aðalfundi sem haldinn var í vikunni. Guðmundur kom fyrst inn í starfsemi Sjómannadagsráðs árið 1970. Árið 1984 tók hann sæti í stjórn Sjómannadagsráðs og hefur hann verið formaður stjórnarinnar frá árinu 1993 eins og áður segir. Skiljanlega hefur Guðmundur haft mikil áhrif á starfsemi Sjómannadagsráðs, Hrafnistuheimilanna og annarra fyrirtækja Sjómannadagsráðs þennan tíma. Mjög margt hefur breyst og hefur starfsemin vaxið og dafnað svo um munar. Starfsemi Sjómannadagsráðs telst til stærstu fyrirtækja landsins og er Hrafnista ein stærsta heilbrigðisstofnun landsins.

Við þökkum Guðmundi kærlega fyrir samstarfið, samfylgdina og samveruna öll þessi ár og óskum honum allra heilla í framtíðinni!

Ég vil jafnframt þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum sem mættu í kveðjuboðið hans á föstudaginn.

Nýr formaður var kjörinn Hálfdan Henrýsson. Hálfdan kom inn í stjórnina árið 1993 og hefur gengt þar stöðum ritara, gjaldkera og nú síðast varaformanns.

Hálfdan bjóðum við hjartanlega velkominn í formannsstólinn og hlökkum til skemmtilegs og spennandi samstarfs!

 

Afmælisveisla í Reykjavík 29. maí – forsetinn kemur í heimsókn!

Nú höfum við fengið staðfest að Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun heimsækja Hrafnistu í Reykjavík mánudaginn 29. maí, kl 14:00. Þá er hugmyndin að halda formlega upp á 60 ára afmæli Hrafnistu í Reykjavík með stuttri hátíðardagskrá. Hátíðardagskráin mun fara fram eftir hádegi og verður hún kynnt vel og rækilega á næstu dögum.

Vonandi ná sem flestir íbúar og starfsmenn að taka þátt í hátíðinni og heilsa upp á forsetann okkar.

 

Framkvæmdir á þaki Hafnarfjarðar hafnar

Gaman er að segja frá því að lagfæringar á þaki Hrafnistu í Hafnarfirði eru hafnar. Þar með er hafið formlega endurbótarferli á húsnæðinu öllu í Hafnarfirði sem mun taka næstu 5-10 ár en eins og þið kannski þekkið er ætlunin að endurnýja allt húsnæðið í samræmi við kröfur og starfsemi nútíma öldrunarþjónustu – sambærilegt við það sem gert var á Hrafinstu Reykjavík fyrir nokkrum árum.

Þetta stóra verk verður að gera í bútum og því mun allt endurnýjunarferlið taka nokkur ár.

Endurnýjun á þaki hússins, sem er fyrsti áfanginn, mun standa fram í ágúst en sannarlega ánægjulegt að sjá að þetta mikla verk er loksins hafið.

 

Starfsafmæli í apríl

Nú í aprílmánuði áttu nokkrir úr okkar flotta starfsmannahópi formleg starfsafmæli. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Gyða Rún Þórsdóttir á Miklatorgi í Reykjavík og Álfheiður Gunnarsdóttir á Bylgjuhrauni í Hafnarfirði.

5 ára starfsafmæli: Anna Margrét Vignisdóttir hjúkrunarfræðingur á Miklatorgi í Reykjavík

10 ára starfsafmæli: Óðinn Anuforo á Lækjartorgi í Reykjavík og Guðrún Halldórsdóttir á Báruhrauni í Hafnarfirði.

Síðast en ekki síst er það hún Dísa í borðsalnum í Reykjavík (Þórdís Hreggviðsdóttir) sem lét af störfum á dögunum eftir hvorki meira né minna en 50 ára starf í þágu Hrafnistu.

Kærar þakkir Dísa og þið öll fyrir ykkar framlag til Hrafnistu og störf í þágu aldraðra.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Síða 235 af 330

Til baka takki