Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 10. maí 2019 - Gestaskrifari er Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Hraunvangi

Lesa meira...

Samskipti og vellíðan á vinnustað

 

Eitt af mínum hugðarefnum eru samskipti og vellíðan á vinnustað. 

Sjálfri  finnst mér gaman að mæta í vinnuna, verkefnin eru fjölbreytt, alltaf nóg að gera, ég á góða og skemmtilega vinnufélaga og mér finnst það mikil forréttindi að fá  að vinna inni á heimili eldra fólks og njóta nærveru þeirra.

En er það sjálfgefið að það sé gaman að mæta í vinnuna?  Ég hef oft velt þessari spurningu fyrir mér og svarið er nei.

Ég hef unnið með mörgum ólíkum einstaklingum, sumir jákvæðir aðrir ekki. Fljótt áttar maður sig á hvað það skiptir miklu máli að vinna með jákvæðu fólki, það er sama hvað verkefnin eru mörg og margslungin það er ekkert til sem heitir vandamál bara lausnir. Allir eru í sama liðinu, liði sem ætlar að ná árangri.

Ég reiknaði út að ef ég verð heppin þá gæti viðvera mín á vinnustað orðið ca. 82 þúsund klukkustundir! Ég er ekki tilbúin að eyða þeim tíma í leiðindi, til þess þykir mér of vænt um lífið.

Ég áttaði mig á að ef ég vildi hafa gott fólk í kringum mig þá þyrfti ég fyrst að líta í eigin barm svo ég setti sjálfa mig í æfingabúðir. Æfingin er sú að brosa, vera jákvæð og  finna lausnir sama hvaða erindi berast mér. Ég hef oft þurft að hnippa í sjálfa mig og minna mig á, en svo verður þetta nokkurs konar vani – góður vani að mínu mati. Aðalbónusinn er sá að þetta smitar út frá sér og ég fæ þetta margfalt til baka og fyrir mig virkar það eins og vítamínsprauta inn í annasaman vinnudag.

Hrafnista er fyrst og fremst þjónustufyrirtæki. Oft er erfitt að meta hvað felst í góðri þjónustu og við gerum mismunandi kröfur en í allri þjónustu skiptir viðhorf starfsfólks þó höfuðmáli og má segja að brosið sé samnefnari fyrir góða þjónustu.

Fyrir okkur sem vinnum á alþjóðlegum vinnustað með samstarfsfólki og heimilismönnum frá mörgum löndum er gott að muna að bros er eins á öllum tungumálum.

Það erum við sem getum sjálf ákveðið hvernig starfsandinn er á okkar vinnustað. Sýnum hvert öðru virðingu, umburðarlyndi og jákvætt viðmót í öllum samskiptum. Við þurfum að vera tilbúin að vinna saman sem liðsheild að sameiginlegum markmiðum. Góður starfsandi eykur starfsánægju og gerir Hrafnistu að eftirsóknaverðu heimili og vinnustað.

 

Árdís Hulda Eiríksdóttir

Forstöðumaður Hrafnistu Hraunvangi

 

Lesa meira...

Síða 147 af 330

Til baka takki