Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 20. september 2019 - Gestahöfundur er Sigríður Jóhanna Sigurðardóttir, deildarstjóri Hrafnistu í Boðaþingi

Lesa meira...

Vinna og einkalíf

Ég hóf minn starfsferil í öldrunarþjónustu á Hrafnistu í Hafnarfirði sumarið 1988. Ég fékk vinnu í borðsalnum og starfaði í Hafnarfirðinum á sumrin ásamt því að vinna með skóla í nokkur ár. Þetta voru lærdómsrík ár og ég áttaði mig á því að ég naut þess að vinna með fólki og ekki síst öldruðum. Þessi ár urðu m.a. til þess að þegar ég stóð á innritunarskrifstofunni í HÍ og velti fyrir mér hvað ég ætti að gera með stúdentsprófið mitt úr Verslunarskólanum þá valdi ég hjúkrun vegna þeirrar reynslu sem ég fékk hjá Hrafnistu og við það varð ekki aftur snúið. Eftir að hafa unnið í áratugi við öldrunarþjónustu er fróðlegt að líta um öxl og íhuga hvaða breytingar hafa orðið á þessum tíma. Ég held að allir sem vinna í þessum geira séu sammála um að breytingarnar séu gífurlegar. Þó að heimilin séu að mínu mati ennþá sömu heimilislegu hjúkrunarheimilin og þau voru þá hefur starfið sem þar er unnið gjörbreyst. Nú notum við klínískar leiðbeiningar, styðjumst við gæðavísa og mikið er lagt upp úr þverfaglegu samstarfi sem áður var í allt annarri mynd. Heilu stoðdeildirnar sinna nú stuðningi, fræðslu og eftirliti á deildum sem að áður var ekki nema svipur hjá sjón eða jafnvel bara til í draumsýn þeirra allra framsýnustu. Allt þetta stóreykur gæði þjónustunnar. Mun meiri tími stjórnenda fer nú í annars konar verkefni en áður þekktust. Jafnvel svo að manni finnst stundum nóg um og langi miklu heldur að fara og aðstoða við uppvaskið en að taka saman niðurstöður um innra eftirlit sýkingavarna og gera úrbætur á því (sorrý Bjarney). Í stuttu máli má segja að breyttar áherslur hafi gert heimilunum gott eitt og fleytt okkur inn í nútímalega hjúkrun en ein breyting hefur orðið sem er mér ansi hugleikin og hún varðar kannski meira  hvar mörkin liggja milli vinnu og einkalífs. Þeir sem hafa unnið vaktavinnu þekkja vel að vinnutíminn hefur áhrif á einkalífið og hvernig við verjum tímanum, t.d. með fjölskyldunni en með aukinni tæknivæðingu og að ég tali nú ekki um snjallvæðingu hafa þessi mörk heldur betur orðið óljós. Ekki er hægt að neita því að bæði tölvupóstar og ég tali nú ekki um Workplace eru ansi góð vinnutæki og geta sparað manni heilmikinn tíma og fyrirhöfn þegar að miðla á upplýsingum. Þessi tæki sem við notum hafa aftur á móti líka sína ókosti. Magnið af upplýsingum sem herja á okkur getur stundum verið yfirþyrmandi. Að opna tölvupóstinn að morgni og sjá 56 ólesna pósta er engin draumabyrjun á deginum. Núna er líka allt í einu hægt að ná í mann á öllum stundum, alltaf. Ansi oft gerist það að maður stimplar sig út úr vinnunni og er jafnvel ekki einu sinni komin heim þegar maður er komin aftur í vinnuna í gegnum símann, skilaboð eða tölvupóst. Það skiptir engu máli hvort það sé matmálstími eða þú sért í helgarfríi, snjallsíminn er aldrei langt undan og hann lætur ekkert svo auðveldlega þagga niður í sér. Börn og makar þeirra sem sífellt fá skilaboð í símann eða eru upptekin í símanum við samstarfsfólk geta ábyggilega vitnað til um það. Nú myndu margir segja að þú stjórnir þessu alfarið sjálfur, það sé hægt að stilla forritin þannig að þau trufli þig ekki á ákveðnum tímum o.s.frv. en er það alveg svo? Ég tel að ansi margir í okkar hópi hafi t.d. sent tölvupósta eftir að vinnutíma lýkur og þegar að mætt er í vinnu klukkan átta daginn eftir spurt viðtakandann hvort hann hafi fengið póstinn frá okkur. Með öðrum orðum, erum við að senda út þau skilaboð frá okkur að við gerum þá „kröfu“ að verið sé að vinna í frítímanum. Svari nú hver fyrir sig. Því þó að vinnan sé okkur hugleikin og við séum virkilega góð í því sem við gerum þá gerir það engum gott að vera alltaf í vinnunni. Ég sé fyrir mér að til þess að minnka megi álag og draga úr streitu í vinnuumhverfinu verðum við mörg að endurskoða okkar vinnubrögð. Hvernig get ég lagt mitt að mörkum til þess draga úr álagi? Ekki senda tölvupósta eftir klukkan fimm á daginn? Draga úr fjölda tölvupósta? Reyna að senda ekki Workplace skilaboð nema þú vitir að samstarfsmaður þinn sé í vinnunni? Mega skilaboðin bíða þar til þú hittir viðkomandi á fundi á morgun? Hversu mikilvægar eru upplýsingarnar sem að þú vilt koma til skila? Eiga þær erindi við alla? Verum meðvituð um áhrif okkar á líðan og velferð annarra. Hugsum áður en við togum fólk aftur í vinnuna með skilaboðum, póstsendingum og símtölum. Ég er sannfærð um að með því getum við stuðlað að betri vinnumenningu og skýrari mörkum á milli vinnu og einkalífs.

 

Sigríður Jóhanna Sigurðardóttir

Deildarstjóri á Hrafnistu í Boðaþingi

 

Lesa meira...

Síða 133 af 330

Til baka takki