Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 11. nóvember 2022 - Gestahöfundur er Ester Gunnsteinsdóttir, deildarstjóri endurhæfingarteymis Hrafnistu

Lesa meira...

 

Hér á Hrafnistuheimilunum er hefð fyrir því að halda haustfagnað. Ýmsir spyrja sig kannski af hverju ætti að fagna því að þetta alltof stutta sumar sem varla kom sé búið og hví að fagna minnkandi dagsbirtu, kulda og öllu sem því tilheyrir. En það eru einmitt svo margar ástæður til að fagna. Mig langar að minnast á nokkrar. Það sem mér finnst notalegast við þennan tíma er þegar rökkvar og maður þarf að kveikja ljóstýrur og jafnvel á kertum. Haustlitirnir í náttúrunni og norðurljósin hafa líka skemmt okkur kvöld eftir kvöld. Í vinnunni er líka gaman þegar allir skila sér til baka úr sumarfríum og skipulag vetrarins hefst. En við í Farteyminu sem er endurhæfingarteymi Hrafnistu á Ísafold, Boðaþingi og í Skógarbæ (Ísabæjarþing) búum til dæmis til vetrarstundatöflur íbúa. Við erum með dagskrá fyrir alla virka daga og síðan er allskonar uppábrot yfir veturinn. Til dæmis erum við núna í haust búin að vera með drottningarþema í tengslum við andlát og útför Englandsdrottningar, hrekkjavökuþema, bleikt þema og árshátíðarþema. Allskonar skemmtilegt sem brýtur upp vinnuvikuna. Það er líka svo mikilvægt að hafa eitthvað framundan að stefna að, undirbúa og hlakka til. Í orðaneti Árnastofnunar eru þessi orð ásamt mörgum öðrum tengd orðinu „tilhlökkun“: undirbúningur, gleði, hlýja, kærleikur, hamingjukennd, stemning, góðar minningar og starfsgleði. Ég get vottað það að á þeim haustfögnuðum Hrafnistu sem ég hef verið á hefur þetta allt átt við.  En við tökum að sjálfsögðu þátt í skipulagningu þeirra og framkvæmd. Íbúar og dagdvalargestir fá þá tækifæri til að bjóða gestum til sín og eiga góða kvöldstund á Hrafnistu með góðum mat, drykk og skemmtun.  Núna í ár hefur verið enn meiri tilhlökkun því síðustu tvö ár hafa haustfagnaðir farið fram á deildum og ekki með gestum.

Það er ekki bara Hrafnistufólk sem fagnar um þessar mundir. Víða um heim er hausti fagnað á mismunandi máta. Sumar þjóðir fagna uppskeru á meðan aðrar þjóðir minnast hinna látnu og enn aðrir sýna þakklæti með stórum fjölskyldusamkomum.  En þakkargjörðarhátið þeirra Bandaríkjamanna og Kanadabúa er í lok nóvember ár hvert. Ég gæti einnig minnst á Októberfest Þjóðverja þar sem drukkið er, dansað og sungið.

Allir þurfa að finna sér tilhlökkunarefni á hvaða tíma árs sem er, það er svo mikilvægt að leyfa sér að hlakka til og svo njóta vel þegar komið er að stundinni góðu. Gleðilegan haustfagnað öllsömul og njótið haustsins og vetursins.

Ester Gunnsteinsdóttir, deildarstjóri enduræfingarteymis Hrafnistu -Boðaþingi, Ísafold og Skógarbæ.

 

Lesa meira...

Síða 13 af 330

Til baka takki