Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 12. maí 2017 - Gestaskrifari er Hrönn Önundardóttir deildarstjóri á Ölduhrauni Hrafnistu Hafnarfirði

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2017_mynd-hronn-onundar_innri.jpeg

Ég tók tækifærinu til að skrifa föstudagspistil fyrir daginn í dag fagnandi, 12. maí, miður vormánuður, uppáhaldið mitt, mikið skyldi ég nú lofsama vorið, sumarstarfsfólkið, gróðurinn, lífið, svo ekki sé nú minnst á eurovision og að það er 12 maí, fæðingardagur Florence Nightengale og dagur hjúkrunar. En allt þetta féll í skuggann af dásamlegri og óvæntri uppákomu, uppákomu sem fyllti mig svo miklu þakklæti og föslkvalausri gleði.

Upphaf þess óvænta átti sér stað snemma í febrúar. Tæplega 4 ára sonardóttir mín spurði mig hvenær ég ætti afmæli og hvað mig langaði í í afmælisgjöf. Ég sagði þeirri stuttu að mest af öllu langaði ömmu í píanó. Útfærsla afmælisveislunnar var síðan rædd og skipulögð af stúlkunni. Henni fannst ómögulegt annað en amman fengi prinsessuköku, jafnvel drottningarköku. Kökuna skyldi skreyta með „svoleiðis“ mörgum kertum (talan fimmtíu vafðist eitthvað fyrir henni), síðan þyrfti að syngja og blása á kertin. Um leið og ég blési átti ég að óska mér allskonar flott. Hún sjálf ætlaði svo að hafa svipað afmæli síðar í sama mánuði, bara stærri köku, mörg kerti, vera með kórónu og í afmæliskjól = frosen-kjól.

Eftir þetta spjall okkar í febrúar hefur stúlkan ekki linnt látunum við pabba sinn; píanó þyrfti að kaupa og gefa ömmu í afmælisgjöf. Amma þyrfti líka að fá alvöru afmælisköku og kerti.

Síðastliðinn mánudag dróst ég hreinlega heim úr vinnunni. Þetta hafði verið einn af þessum dögum þar sem allt gerist og maður einhvernveginn komst aldrei fyrir hornið. Til að rétta kúrsinn hefði ég þurft að halda mínum vanalega rúnti; fara í rækina og í stelpuklúbbinn minn um kvöldið. En sonur minn hafði suðað í mér alla helgina að passa fyrir sig frá klukkan 17:00 þennan dag; „ mamma þú bara VERÐUR að bjarga mér“ eins og allar mömmur þessa lands vita stöndumst við ekki svona bón svo ég sleppti ræktinni, boðaði seinkun í klúbbinn og mætti heim um það bil á umsömdum tíma.

Þar tók minn heittelskaði á móti mér, tók af mér veski, lykla, poka, jakka og pinkla og leiddi mig inn í stofu. Þar var búið að dekka upp kaffiborð með barbie diskum, servíettum og glösum, gullskeiðum og í miðjunni stóð bleik barbie-kaka. Í kringum mig hópuðust ÖLL barnabörnin og færðu mér pakka. Pakkinn var umvafinn bláum Toy´s´rus – pappír með rauðum borða. Sonardóttirin ljómaði eins og sólin þegar hún rétti mér pakkann og sagði: „amma opnaðu strax, þú verður, nú getur þú spilað á píanó þegar þú vill „

Eftir að hafa dáðst að bleika píanóinu sem pakkinn innihélt settumst við kringum stofuborðið og börnin sungu:“hún á ammæl ún amma“ og bættu við „hún hefur stækkað í nótt“ ... og amman grét af stolti, gleði og þakklæti yfir barnabarnahópnum, barnahópnum, heimilinu og þessari tæru gleði sem börnin geisla af.

Gleðin og þakklætið hefur ekki dottið af mér síðan. Ég er svo þakklát fyrir að hafa vinnu, vinnu sem mér finnst skemmtileg og gefandi. Ég er svo þakklát fyrir að fá að vinna með öllu þessu skemmtilega og hæfileikaríka fólki á Hrafnistu og fá tækifæri til að kynnast heimilisfólkinu og aðstandendum þeirra. Ekkert af þessu er sjálfgefið, ekki frekar en hamingjan, ævintýrin eða ást og kærleikur fjölskyldunnar. Þetta eru gjafir sem okkur hlotnast í lífinu. Yfileitt höfum við lagt eitthvað af mörkum og gefið af sjálfum okkur út í alheiminn til þess að öðlast þessar gjafir. Uppskeran er miklu meiri en nokkrir peningar eða prinsessur geta keypt, Uppskeran er nefnilega öflin sem halda veröldinni gangandi; ást, umhyggja, gleði og þakklæti.

Takk fyrir mig.

Hrönn Önundardóttir, hjúkrunardeildarstjóri á Ölduhrauni

Hrafnistu Hafnarfirði

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur