Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 3. mars 2017 - Gestaskrifari er Erla Ólafsdóttir, deildarstjóri sjúkraþjálfunar Hrafnistu í Kópavogi

Meistaramánuður

Það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum að febrúar og þar af leiðandi meistaramánuður er nýliðinn. Oft notar fólk það til að setja sér markmið fyrir nýtt ár, byrja að hreyfa sig og koma sér í gang. Aðrir jafnvel reyna að friða samviskuna og ætla að bæta upp fyrir jólasukkið ef það hefur verið mikið.

Gott er að hafa í huga að þetta er einungis einn mánuður af tólf á árinu. Mikilvægt er að fara ekki út í einhverjar öfgar í einn mánuð og missa svo jafnvel móðinn og detta fljótt í sama farið aftur þegar febrúar er búinn, eða jafnvel fyrr því það átti að taka allt með trompi.

Höfum að leiðarljósi hinn gullna meðalveg, þar sem það er vænlegast til árangurs til langs tíma.

Hreyfing getur verið af ýmsum toga og ágætt að miða við 30 mín á dag. Það þarf ekki annað en góðan göngutúr eða léttar æfingar heimafyrir. Svo er líka frábært að nýta snjóinn sem er loksins kominn og skella sér upp í fjall á bretti eða skíði eða jafnvel finna góða brekku og renna sér á sleða og vera aftur barn í einn dag. Ekki er nauðsynlegt að splæsa í líkamsræktarkort, það er hægt að gera svo margt annað. Það getur verið gott að byrja að koma sér af stað á annan hátt og svo þegar þrekið og krafturinn eykst er hægt að færa sig yfir í meiri krefjandi hreyfingu og fara inn á líkamsræktarstöðvar ef vilji er fyrir hendi. En að sjálfsögðu er meistaramánuður frábær einnig til að hvetja þá sem eru duglegir að hreyfa sig að staðaldri að vera enn virkari, fá hvatningu og komast nær sínum markmiðum.

Lífshlaupið

Við á Hrafnistu í Kópavogi ákváðum að taka þátt í Lífshlaupinu sem er einnig í febrúarmánuði eins og Meistaramánuður.

Lífshlaupið gengur út á að safna sem flestum mínútum í hreyfingu og ná sem flestum dögum virkum í einhvers konar hreyfingu. Samanlagður tími hreyfingar þarf að vera a.m.k. 30 mín á dag samtals til að teljast, en það er í lagi að skipta niður hreyfingunni yfir daginn í minni einingar.

Okkur tókst ágætlega til í frumraun okkar í Lífshlaupinu og lentum í 27. sæti af 87 í flokknum 70-149 starfsmenn. Við vorum með þrjú lið sem kepptu sem ein heild í þessum flokk, en svo var skemmtileg keppni innan liðanna hjá einstaklingum og milli liða líka.

Það er alltaf skemmtilegt að fá tilbreytingu í tilveruna og svona hristir starfsmannahópinn saman. Við munum klárlega taka þátt aftur að ári og skorum á hin Hrafnistuheimilin að taka þátt með okkur í stóru keppninni því samanlagt erum við svo ótrúlega stór! En svo væri líka mjög skemmtilegt að fá meiri keppni  innbyrðis og heimilin gætu keppt á móti hvort öðru.

Góða helgi!

Erla Ólafsdóttir deildarstjóri sjúkraþjálfunar

Hrafnistu Kópavogi

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur