Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 18. nóvember 2016 - Gestaskrifari er Þuríður I. Elísdóttir, hjúkrunardeildarstjóri Nesvalla

Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Alla daga erum við að sinna þjónustu við íbúa okkar. Að baki hverjum íbúa eru aðstandendur og á undaförnum árum hefur þjónusta okkar við þá aukist í formi fjölskylduhjúkrunar.  Auknar kröfur á aukin gæði og bætta þjónustu hafa komið fram frá aðstandendum. Allir starfsmenn okkar eru að reyna að gera sitt besta daglega svo að þjónustuþegar okkar séu sáttir. Á Suðurnesjum hefur fjölgað þjónustuþegum sem eru yngri en við erum vön að þjónusta og krefst sú þjónusta meiri félagslegrar og andlegrar færni af hálfu starfsmanna.

Ég hef setið fundi hjá FAAS sem er félag aðstandenda alzheimer sjúklinga. Það er fróðlegt og dýrmætt að hlusta á aðstandendur sem eru oft að tjá sig um sína upplifun á því að vera aðstandendur einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma. Margir eru að lýsa sömu upplifun og nefna að þegar ástvinur hefur fengið greiningu  þá hafa margir hætt að koma í heimsókn. Þeir upplifa sig eina með sinn maka og eru oft orðnir ansi þreyttir þegar þeir sækja um á hjúkrunarheimili fyrir sinn aðstandanda. Einn maki tjáði mér um daginn að þetta væri svo erfitt þar sem makinn segði stundum ekkert í heimsóknunum og hún væri ekki viss um hvort hann gerði sér grein fyrir að hún kæmi í heimsókn. Það eru oft miklar tilfinningar sem bærast um í brjósti þessara aðstandenda þegar þeir eru að koma inn á okkar stofnanir að heimsækja ástvini sína, og þess vegna þarf að hafa hugfast að: „aðgát skal höfð í nærveru sálar“. Þeir upplifa oft að þeir séu búnir að missa makann sinn eins og hann var þar sem heilabilunarskjúkdómar valda mikilli persónubreytingu á einstaklingum og því eru þau að upplifa ákveðna sorg. Viðmót okkar og okkar starfsfólks hefur mikið að segja hvernig aðstandendur upplifa heimsóknir sínar inn á hjúkrunarheimilin.  Að taka vel á móti aðstandendum getur gert upplifun þeirra svo miklu ánægjulegri. Það skiptir miklu máli að hafa frumkvæði að samskiptum við aðstandendur. Að fara til þeirra og upplýsa um líðan aðstandandans þann daginn hvort sem dagurinn hafi verið góður eða hafi kannski ekki verið svo góður. Með góðri upplýsingagjöf  fá þau öryggi um að það sé verið að annast vel um sinn aðstandanda, að það sé virkilega verið að taka eftir hvernig honum líður. Að bjóða góðan daginn, bjóða upp á kaffi,  spyrja hvernig þau hafi það og gefa þeim stundum klapp á bakið eða jafnvel hlýtt faðmlag getur gert kraftaverk svo ekki sé minnst á brosið. Brosið hefur meiri mátt en við gerum okkur grein fyrir. Eftir ein áramótin þegar allir voru að þakka fyrir gamla árið kom aðstandandi til mín og sagði : „takk fyrir öll brosin“, ég áttaði mig ekki alveg á því hvað hún var að meina og hún sagði svo : „þú veist ekki hvað brosin þín hafa glatt mig og gert mikið fyrir mig“. Umhyggja í verki og orðum kostar ekkert og tekur ekki langan tíma en getur skilað miklu til íbúa okkar og þeirra aðstandenda. Það er viðhorf okkar og starfsfólks okkar  til þjónustunnar og þeirra starfa sem við erum að sinna sem hefur mikið að segja. Það hvernig við veljum að mæta til vinnu, já það er nefnilega val, og það hugarfar sem við mætum með skiptir öllu máli. Ef við veljum að vera jákvæð og brosmild þá smitar það áfram á milli starfsfólksins, til íbúa okkar og  þeirra  aðstandenda.

Góð samvinna starfsfólks skilar sér í góðu starfi og aukinni starfsánægju á meðal starfsfólksins. Góð samvinna við aðstandendur skilar sér líka í aukinni ánægju þjónustuþega okkar.

Með von um góða helgi með  gleði  í hjarta.

Og munið: Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.

Þuríður Ingibjörg Elísdóttir     

Hjúkrunardeildarstjóri Nesvalla

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur