Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 4. nóvember 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 4. nóvember 2016.

 

Ágæta samstarfsfólk,

Sléttuvegur að komast af stað!

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, undirrituðu nýlega samning um byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjavík. Framkvæmdir eiga að hefjast í byrjun næsta árs og er stefnt að því að heimilið verði tilbúið snemma árs 2019. Heildarkostnaður framkvæmdanna er áætlaður rúmir 2,9 milljarðar króna, að búnaðarkaupum undanskildum.

Reykjavíkurborg leggur heimilinu til lóð, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, og hefur ákveðið að það verði byggt við Sléttuveg í Fossvogi. Borgin mun annast hönnun og verkframkvæmdir. Skipting kostnaðar miðast við 40% framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra, 45% úr ríkissjóði og 15% frá Reykjavíkurborg. Áætlaður heildarkostnaður við hönnun og byggingaframkvæmdir upp á rúma 2,9 milljarða króna miðast við 100 hjúkrunarrými en gert er ráð fyrir sveigjanleika við hönnun þannig að fjöldi rýma getur verið á bilinu 95 – 105.

Þó við höfum ekki verið formlegir aðilar að undirrituninni í dag, er rétt að rifja upp að Reykjavíkurborg hefur samið við okkur (Hrafnistu/Sjómannadagsráð) um starfsemina á Sléttuvegi og hefur samstarfið varað í tæp 10 ár. Á því hafa orðið ýmsar tafir sem vonandi eru nú að baki.

Á Sléttuvegsreitnum mun því rísa hjúkrunarheimilið samtengt við þjónustumiðstöð sem Reykjavíkurborg hefur þegar samið við okkur um að reisa og reka. Á lóðinni verða svo byggðar um 100 þjónustuíbúðir fyrir aldraða.

Það er því allt að gerast á Sléttuveginum, eftir langa bið!

 

Haustfögnuðum og vetrarhátíðum lokið – kærar þakkir!

Í dag fór fram stórglæsileg Vetrarhátíð Hrafnistu í Hafnarfirði. Hátíðin tókst með eindæmum vel þar sem veislugestir sporðrenndu kótelettum í raspi og nutu sönghæfileika og sviðframkomu hinnar glæsilegu Valgerðar Guðnadóttur söngkonu, áður en risaball DAS-bandsins hófst.

Með hátíðinni lauk tímabili haustfagnaða á öllum Hrafnistuheimilunum en nú hafa öll Hrafnistuheimilin haldið glæsilega fagnaði þar sem markmiðið er að skapa tilbreytingu fyrir íbúana okkar þar sem hægt er að klæða sig upp, fara fínt út að borða og njóta skemmtikrafta í hæsta gæðaflokki.

Það eru ekki öll öldrunarheimili sem státa sig að því að bjóða íbúum sínum og gestum þeirra til veislu af þessu tagi. Glæsilegar myndir frá öllum fögnuðunum eru að finna hér á heimasíðunni okkar.

Til þess að svona veislur geti heppnast þurfa fjöldamargir úr okkar starfsmannahópi að leggjast á eitt við undirbúning, framkvæmdina sjálfa og frágang. Slíkt er ekki sjálfgefið.

Ég er ykkur mjög þakklátur fyrir að vera tilbúin að leggja á ykkur að gera þessa viðburði jafn glæsilega og raun ber vitni!

 

Íbúðarvinningur í Happdrætti DAS fór á Norðurland.

Það er alltaf gaman að segja fréttir af bakhjarli okkar, Happdrætti DAS. Nýlega var dreginn út aðalvinningur, íbúð að upphæð 30 milljónir króna. Eigandi miðans reyndist kona á fertugsaldri sem býr á Norðurlandi og má með sanni segja að hún hafi dottið í lukkupottinn.

Það er aldrei of oft talað um Happdrætti DAS í okkar hópi, en það var stofnað fyrir 62 árum til að styðja við uppbyggingu Hrafnistuheimilanna. Enn í dag er Happdrættið að skila inn tugum milljóna til uppbyggingar og endurbyggingar Hrafnistuheimilanna.

Það er ómetanlegt fyrir starfsemi eins og okkar að hafa slíkan bakhjarl fyrir okkar starfsemi.

Við þurfum jafnframt að vera dugleg við að sameinast um að hvetja alla velunnara Hrafnistu að smella sér inn á www.das.is og fá sér miða í þessu merka Happdrætti!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur