Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 23. september 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 23. september 2016.

 

Ágæta samstarfsfólk,

Dvalarrýmum fækkar á Hrafnistu í Hafnarfirði og Reykjavík

Velferðarráðuneytið hefur samþykkt beiðni okkar varðandi breytingar á rýmum á Hrafnistu í Hafnarfirði. Á næstu mánuðum munum við breyta 28 dvalarrýmum í 14 hjúkrunarrými. Þessi breyting felur einnig í sér að 14 tvíbýlisherbergi sem þar eru (á 2., 3. og 4. hæð), verður breytt í einbýli.

Þó þetta fækki íbúum heimilisins um 14 og geri líklega Hrafnistu í Reykjavík aftur að fjölmennasta öldrunarheimili landsins, veit ég að þetta mun gera allt starf hjá okkur í Hafnarfirðinu skilvirkara og létta um leið örlítið á starfsfólki þeirra deilda sem um ræðir.

Velferðarráðuneytið hefur einnig samþykkt áætlun um að dvalarrými okkar í Reykjavík leggist af. Þar eru nú 9 dvalarrými. Fimm þeirra eru inn í Hrafnistu-húsinu sjálfu og verður þeim öllum breytt í hjúkrunarrými með tíð og tíma. Fjögur dvalarrými eru hins vegar eftir í húsnæði Sjómannadagsráðs við Jökulgrunn. Þar verða ekki teknir nýjir einstaklingar í dvalarrými en íbúar okkar þar sem nú eru, fá að vera þar eins lengi og þeir geta.

Sjálfsagt sýnist sitt hverjum um þessa fækkun dvalarrýma hjá okkur, enda getur þetta úrræði fyrir eldri borgara verið mjög hentugt í ákveðnum tilvikum. Hins vegar er það svo að það er stefna stjórnvalda að leggja af dvalarrými í eins miklum mæli og hægt er.

 

Skrifað undir um stækkun í Kópavogi

Síðasta föstudag skrifuðu Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogsbæjar og Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar undir samkomulag um byggingu 64 rýma hjúkrunarheimilis í Boðaþingi. Það mun rísa á lóð Kópavogsbæjar í Boðaþingi og verður tengt við byggingu með 44 hjúkrunarrýmum sem fyrir er á lóðinni og við starfrækjum undir merkjum Hrafnistu Kópavogi. Heildarkostnaður við hjúkrunarheimilið er áætlaður 1.430 milljónir króna. Kostnaðurinn skiptist þannig að 85% greiðist af velferðarráðuneytinu og 15% af Kópavogsbæ. Til viðbótar þessum kostnaði fellur til kostnaður við kaup á búnaði og greiðist hann í sömu hlutföllum og byggingin.

Rétt er að geta þess að Sjómannadagsráð eða Hrafnista er því ekki eigandi húsnæðisins, heldur aðeins rekstraraðili, rétt eins og á heimilum okkar í Reykjanesbæ, og því eigum við ekki aðild að þessari undirskrift.

Miðað er við að framkvæmdir hefjist á fyrsta ársfjórðungi 2017 og að taka megi heimilið í notkun á þriðja ársfjórðungi 2018.

Þessu ber að fagna enda mun seinni áfangi hjúkrunarheimilisins heldur betur setja aukin lit í starfið okkar í Kópavoginum.

 

Árshátíð Hrafnistu – 25. mars 2017

Af því sumir eru svo ótrúlega skipulagðir þá langar mig að geta þess að árshátíð Hrafnistu (sameiginleg fyrir starfsfólk allra heimilanna) verður haldin laugardaginn 25. mars 2017.

Svona mikinn viðburð þarf auðvitað að bóka tímanlega og gera ýmsar ráðstafanir.

Endilega takið daginn frá.

Dagskrá og fleiri praktísk atriði verða kynnt þegar nær dregur.

 

Hafragrautur í Hafnarfirði

Framkvæmdaráð Hrafnistu hefur samþykkt að frá og með 20. september verði starfsmönnum Hrafnistu í Hafnarfirði boðið upp á hafragraut þeim að kostnaðarlausu milli kl. 09.15 og 10:00 í matsal á 1. hæð.

Rétt er að geta þess að þetta á aðeins við um hafragraut, ekki annan morgunmat, ekki er t.d. hægt að fá fría AB mjólk eða brauð í staðinn ef einhver borðar ekki hafragraut.

Um er að ræða prufuverkefni í 2 mánuði.

Við erum spennt að sjá hvernig þessu verður tekið og ef vel gengur verður þessu án efa haldið áfram. Ef viðtökur verða jákvæðar munum við einnig taka þetta upp í Reykjavík, ef áhugi er fyrir því meðal starfsfólks.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur