Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 22. apríl 2016 - Gestaskrifari er Anný Lára Emilsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á Báruhrauni Hrafnistu Hafnarfirði

Sumarmönnun á Báruhrauni:

Undanfarna mánuði hef ég unnið að því að gera vaktaskýrslu sumarsins á Báruhrauni. Og já, þið lásuð rétt, undanfarna mánuði! Það er ótrúlega mikil vinna sem felst í því að halda uppi sólarhringsvaktþjónustu á stórri hjúkrunardeild. Sumarfrísóskir fastráðinna starfsmanna eru háðar ytri aðstæðum og það er erfitt að koma ekki til móts við margar þeirra, t.d. hjá einstæðum foreldrum sem hafa ekkert um það að segja hvenær leikskólinn lokar og hjá pörum sem vilja skiljanlega taka a.m.k. hluta af fríinu samtímis. Sumarafleysingar byggja nær eingöngu á afleysingu frá skólafólki en nú eru skólafríin styttri en hér á árum áður og margir ráða sig ekki til sumarstarfa nema að þeir fái eitthvað sumarfrí. Ferðamannaiðnaðurinn er í örum vexti hérlendis og samkeppnin um starfskrafta hörð. Við á Báruhrauni höfum verið svo heppin að margir af skólafólkinu sem var í hlutastarfi í vetur bað um fulla vinnu í afleysingum og núverandi starfsmenn hafa hvatt vini og ættingja til að slást í hópinn með okkur í sumar. Það segir ansi mikið um það hvað það er gott að vinna á Hrafnistu - þú mælir ekki með vinnu við þína ástvini nema þér líki vel við vinnustaðinn!

Dýrmæt reynsla að vinna á hjúkrunarheimili:

Það dylst engum að það er krefjandi að sinna hrumum skjólstæðingum, ekki síst þegar fjármagnið sem ætlað er til verksins dugar skammt. Vonandi taka ráðamenn landsins sig á og veita auknu fé í þennan málaflokk sem allra fyrst svo starfsfólk Hrafnistu geti áfram veitt þá frábæru þjónustu sem það hefur veitt sl. áratugi. Kostirnir við það að vinna á Hrafnistu eru ótalmargir og veitir reynslu sem ekki verður metin til fjár. Ég hef ekki tölu á því hvað margir hafa tjáð mér, þegar ég segi þeim við hvað ég starfa, að þeir hafi unnið tímabundið á hjúkrunarheimili hérna í den og það sé jákvæð lífsreynsla sem þeir búi að alla tíð. Í vinnu á hjúkrunarheimili lærist svo margt sem nýtist í lífinu almennt og má yfirfæra til að finna lausnir á vandamálum á öðrum starfsvettvangi, s.s. að vinna í hóp, að túlka látbragð, að takmarka sóun og hámarka afköst og að fá krefjandi einstaklinga til samvinnu. Í dag er mikið talað um núvitund og mikilvægi þess að tileinka sér slíkt í því mikla áreiti sem einkennir daglegt líf í vestrænu samfélagi. Eftir að hafa verið viðloðandi starfsemi hjúkrunarheimila í tuttugu ár get ég fullyrt að það er vandfundinn sá vinnustaður sem gerir manni betur kleift að ná jarðtengingu og forgangsraða í lífinu.

 

Sérlega öflugur samstarfshópur á Hrafnistuheimilunum:

Nýverið tók ég þátt í hópeflisþraut hjá Reykjavík Escape með starfsmönnum Hrafnistuheimilanna. Í upphafi vorum við beðin að stilla væntingum í hóf þar sem reynslan sýndi að eingöngu 35% hópa næðu að leysa þessa þraut. Af Hrafnistuhópnum náði 70% að leysa vandamálið og hinir voru rétt handan við hornið þegar þeir féllu á tíma. Þetta segir allt sem segja þarf um samstöðuna á okkar vinnustað og ég er óendanlega stolt af því að tilheyra þessari fjölskyldu.

 

Anný Lára Emilsdóttir sérfræðingur í öldrunarhjúkrun, deildarstjóri Báruhrauns, Hrafnistu Hafnarfirði

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur