Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 26. júní 2020 - Gestahöfundur er Hrönn Ljótsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Ísafold í Garðabæ

 

Sumarfrí á Hrafnistu

Kærkomin sumarfrí eru að byrja á Hrafnistuheimilunum eftir mjög svo skrítinn vetur. Með fríunum breytist margt, sumarafleysingafólkið okkar kemur inn til starfa og hafa með sér ferskan blæ. Það að vinna á hjúkrunarheimili gefur ungu fólki mikla ábyrgð og mikla reynslu sem vonandi fylgir þeim út lífið hvað sem þau svo taka sér fyrir hendur í framtíðinni. Ég er hins vegar að stíga mín fyrstu skref hinum megin við borðið þessa sumarfrísdaga mína því ég er orðin aðstandandi á Hrafnistu Hraunvangi. Ég fylgist því vel með þessu unga fólki sem vinnur þar og gerir dagana svo góða og fallega. Ég finn mikla virðingu og væntumþykju til míns aðstandanda sem sjálf upplifir öryggi og hlýju. „Veistu, sagði aðstandandinn minn við mig í gær, alltaf á kvöldin, þegar ég er komin upp í rúm, banka þau og spyrja hvort það sé í lagi hjá mér. Þetta er svo notalegt að ég fer alveg róleg að sofa“.  Það er himinn og haf á mínum aðstandanda varðandi líðan þessa fyrstu vikur, tónleikar, dansiböll, stólaleikfimi, prjón, málun og messur. Allt mögulegt er gert til að stytta stundir, horfa á sjónvarpið saman eða bara að njóta kyrrlátrar samveru hvors annars. Hvað ég vildi óska að allir sem þurfa aðstoð og geta ekki búið einir, hefðu þessa möguleika á Íslandi, ég fæ sting í hjartað að hugsa til allra þeirra sem fá ekki pláss vegna skorts á hjúkrunarrýmum eða að viðeigandi búsetuúrræði er ekki til, að fólk lifi í ótta og óöryggi jafnvel mánuðum eða árum saman, ættingjar búnir að gefa allt sitt og jafnvel orðnir sjúklingar sjálfir, þannig dæmi sé ég allt of oft í minni vinnu.

Flestir starfsmenn hjúkrunarheimila eignast marga nýja vini í starfi, bæði samstarfsmenn og íbúa heimilanna og oft er mikið hlegið í vinnunni, en stundum grátið þegar að sorgin knýr dyra hjá okkur. Þegar íbúar okkar kveðja finnum við sorg ættingja og vina, ákveðin kaflaskil í lífi fjölskyldna eru alltaf erfið þó að í langflestum tilfellum okkar er dauðinn líkn og fólkið okkar kveður sátt við Guð og menn. Margt af unga fólkinu okkar er að upplifa dauðann í fyrsta skipti og þá er gott að hafa reynslumikla starfsfólkið sér við hlið. Við ávörpum líka þessa reynslu í nýliðafræðslunni okkar og reynum að undirbúa ungu starfsmennina eins vel og hægt er. En eins og ég sagði er langoftast gaman í vinnunni hjá okkur, mikil gleði og mikið hlegið, margir vinir, margir samstarfsmenn og margir aðstandendur sem gerir vaktina fljóta að líða og þetta sumar verður búið áður en við vitum af.

Ferðumst um Ísland, verum öll almannavarnir og allt það. Farið varlega í fríum og hittumst öll heil í haust.

 

Hrönn Ljótsdóttir

Forstöðumaður Hrafnistu Ísafold.

 

Föstudagsmolarnir fara nú í sumarfrí til 7. ágúst.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur