Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 8. maí 2020 - Gestahöfundur er Hálfdan Henrysson stjórnarformaður Sjómannadagsráðs

Föstudagsmolar  8. maí 2020

 

Kveðja frá stjórnarformanni.

 

Komið er að leiðarlokum eftir áratuga starf.  Það er með trega í huga sem ég kveð starf mitt í Sjómannadagsráði.  Aldurinn færist yfir og tími kominn til að hleypa yngri mönnum að. Ég hef verið hér í langan tíma, en hann hefur kennt mér margt.  Hér hefur verið afar ánægjulegt að starfa, verkefnin mörg og aldurinn oftast gleymst við skemmtileg og krefjandi störf. Ég hef verið heppinn að vinna með áhugasömu og  duglegu fólki bæði í Sjómannadagsráði og ekki síst með starfsfólki Hrafnistuheimilanna og Sjómannadagsráðs.  Þegar ég lít til baka er mér efst í huga þakklæti til alls þess fólks sem ég hef kynnst á þessari löngu siglingu. Það eru nú tæplega 30 ár síðan hún hófst og ég tók sæti í stjórn Sjómannadagsráðs og 34 ár síðan ég varð fulltrúi í Sjómannadagsráði.  Það er að sjálfsögðu margs að minnast á þessum tíma. Margar gleði og ánægjustundir. Stundum verið erfitt, ekki alltaf mikil fjárráð til rekstursins en þeim áhyggjustundum hef ég öllum  gleymt og minnist nú ekki nema þeirra ánægjulegu. Ég var svo heppinn að taka sæti í stjórn ráðsins um leið og Guðmundur Hallvarðsson varð formaður þess.  Allt okkar samstarf í langan tíma  var með þeim hætti að aldrei bar skugga á. Oftast ákaflega skemmtilegt og Guðmundi eiginlegt að slá á léttar nótur þegar erfiðleikar blöstu við. Stundum  siglt milli skers og báru en ávallt djarflega eins og Guðmundur myndi orða það.  Starfsfólk Sjómannadagsráðs er nú um 1500 manns og flestir þeirra að sjálfsögu starfsfólk Hrafnistu.  Það er ekki lítið fyrirtæki sem hefur 1500 manns í vinnu.  Það er mikil ábyrgð sem stjórnendum hefur verið falin að reka þetta fyrirtæki með þeim glæsibrag sem sjá má hvarvetna í rekstrinum.  Mér eru ofarlega í minni þær framkvæmdir sem nýlokið er við eða eru á lokasprettinum og á þar við byggingu hjúkrunarheimilis, leiguíbúða,  þjónustumiðstöðvar og nýs eldhúss fyrir Hrafnistuheimilin.  Það er með stolti og ánægju að það skuli hafa tekist að framkvæma þessar byggingar undir áætluðu kostnaðarverði og afhenda á tilsettum tíma. Stjórnendur  okkar og nánustu samstarfsmenn þeirra sem unnið  hafa  við þessar framkvæmdir  hafa að mínu áliti  nánast unnið þrekvirki. Við höfum á undanförnum árum frekar heyrt af framkvæmdum sem stundum hafa farið langt fram úr áætluðum kostnaði og stundum munað mjög miklu. Sú varð ekki raunin með þessar framkvæmdir og þökkum við starfsfólki okkar þennan mikla árangur. Fyrirkomulag  hjúkrunarheimilisins við Sléttuveg er að fullu unnið í samræmi við óskir starfsfólks Hrafnistuheimilanna og þykir hafa einstaklega vel tiltekist.  Þar höfum við notið reynslu og  þekkingar  starfsfólks sem unnið hefur að málum aldraðra í langan tíma og haft að leiðarljósi velferð þess en einnig  hagkvæmni rekstrar.  COVID faraldurinn hefur sýnt okkur hversu mikilvægt er að hafa fært fólk í vinnu og framganga starfsfólks okkar í þessum óvænta heimsfaraldri hefur sýnt að því verður seint þakkað ótrúlegur árangur.

Að undanförnu hef ég stundum verið spurður um hvað við taki eftir þetta áhugastarf mitt við Sjómannadaginn og Hrafnistuheimilin.  Ég hef lengst af verið sjómaður og alltaf unnið við störf tengdri sjómennsku með einhverjum hætti.  Nú ætlum við hjónin að róa á önnur mið. Það var lengi mikið áhugamál okkar að ferðast um landið og átti hálendið þar sérstakan sess. Nú höfum við ákveðið að leita uppi fornar slóðir og endurnýja um leið þekkingu á landinu.  Börnin fyrir löngu vaxin úr grasi en  barnabörnin eru sextán og vonandi vilja einhver þeirra slást í för og njóta einstaks  víðernis og náttúru sem landið okkar hefur uppá að bjóða.

Að lokum vil ég endurtaka þakklæti mitt og eiginkonu minnar fyrir allar ánægjulegu stundirnar sem við höfum fengið að njóta með starfsfólki Hrafnistu,  Sjómannadagsráðs,  happdrættis DAS og síðast en ekki síst félögum mínum í Sjómannadagsráði og stjórn þess.

 Megið þið öll gæfu njóta.

Hálfdan Henrysson.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur