Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 1. maí 2020 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 1. maí 2020.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Þið eruð á heimsmælikvarða!

Það er vel við hæfi að föstudagsmolar dagsins séu tileinkaðir ykkur og ykkar störfum sem eru hreinlega á heimsmælikvarða eins og fram kemur hér í pistlinum!

Molarnir eru eftirfarandi grein eftir mig og Björn Bjarka Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Brákarhlíðar í Borgarnesi og varaformann Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, en þessi grein birtist í Morgunblaðinu 30. apríl.

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

Árangur á heimsmælikvarða

Tæplega helmingur þeirra sem látist hefur af völdum kórónuveirunnar í Evrópu voru íbúar hjúkrunarheimila eða langlegudeilda fyrir aldraða að því er fram kom í máli fulltrúa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á blaðamannafundi nýlega. Þetta eru dapurlegar fréttir, ekki síst í huga þeirra sem tengjast starfsemi hjúkrunarheimila, hvort sem er íbúa, starfsfólks eða aðstandenda. Til allra heilla á þessi veruleiki ekki við um Ísland þar sem hér hefur tekist einstaklega vel að vernda líf og heilsu aldraðra með þeim úrræðum sem flestum eru kunn.

Þótt vel hafi tekist til hér á landi er þó enn of snemmt að fagna sigri í baráttu landsmanna gegn veirunni skæðu. Staðan nú er engu að síður sú, að miðað við tölur um fjölda smita í samfélaginu, þar á meðal á hjúkrunarheimilum, að full ástæða er til að gleðjast yfir árangrinum hér á landi. Honum má þakka markvissum aðgerðum og ráðleggingum yfirvalda, ekki síst „þríeykisins” magnaða og þess hæfa samstarfsfólks sem haldið hefur vel á málum í góðri samvinnu við stjórnvöld. Stjórnendur hjúkrunarheimila hafa átt gott samstarf við alla hlutaðeigandi aðila, ekki síst frá þeim tíma er stefndi í lokun heimilanna sem kom til framkvæmda þann 6. mars.

Vissulega hafa sorgleg tíðindi borist frá Vestfjörðum þar sem tveir íbúar hjúkrunarheimilis hafa látist af völdum veirunnar. En staðreyndin er þó sú að tekist hefur að verja heilsu og velferð allra hinna, um 2.800 íbúa hjúkrunarheimila landsins, sem til þessa hafa sloppið við smit. Það má eins og áður segir þakka markvissum aðgerðum ofangreindra aðila, en ekki síður einstökum viðbrögðum og vinnubrögðum starfsfólks hjúkrunarheimilanna. Árangurinn er einstakur á heimsmælikvarða. Að því sögðu er engu að síður mikilvægt að við, sem tengjumst hjúkrunarheimilunum, höldum áfram vöku okkar með áframhaldandi góðu samstarfi starfsfólks heimilanna, íbúa þeirra og aðstandenda. Allir þurfa að leggjast á eitt til að varðveita árangurinn svo komast megi hjá sýkingum sem haft gætu ófyrirséðar afleiðingar eins og dæmin sanna.

Forsenda þess að viðhalda megi árangrinum er ekki síst komin undir framúrskarandi vinnubrögðum starfsfólks hjúkrunarheimilanna sem stendur í framlínu við umönnun aldraðra allan sólarhringinn 365 daga ársins. Velferð heimilisfólks er mjög háð því að hver og einn starfsmaður sé starfi sínu vaxinn og sýni viðeigandi ábyrgð í leik og starfi þannig að ekki skapist hætta á að smit berist inn á hjúkrunarheimilið sem hann starfar hjá.

Enda þótt ekkert hafi verið staðfest, teljum við eðlilegt að stjórnvöld geri ráð fyrir þessum mikilvæga hópi, sem starfsfólk hjúkrunarheimilanna er, í þeim áformum ríkisstjórnarinnar að umbuna framlínustarfsfólki í heilbrigðisgeiranum sérstaklega. Viðhorf og viðmót starfsfólks hjúkrunarheimila hefur verið algerlega magnað undanfarnar vikur og starfsmenn sýnt mikla fórnfýsi og einstakan samstarfsvilja í þeim áskorunum sem blasað hafa við og í raun leitt til algerlega nýs skipulags á hverju einasta hjúkrunarheimili landsins. Eins og margir aðrir í samfélaginu, sem sýnt hafa góðan árangur í starfi, á starfsólk hjúkrunarheimila svo sannarlega skilið þakklæti og umbun stjórnvalda fyrir framlag sitt í baráttunni við skaðvaldinn skæða sem við ætlum öll að sigrast á.

 

Björn Bjarki Þorsteinsson, varaformaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, Pétur Magnússon, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur