Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 15. nóvember 2019 - Gestahöfundur er Valgerður K. Guðbjörnsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Sléttuvegi

 

Ég hef verið hjúkrunarfræðingur í tæp 16 ár og unnið með öldruðum nánast alla mína starfsævi sem hjúkrunarfræðingur. Örlög mín voru greinilega ráðin þegar ég sótti um sumarvinnu með hjúkrunarnáminu árið 2002 því ég hélt svo áfram að vinna á Hrafnistu sem hjúkrunarfræðingur, aðstoðardeildarstjóri, deildarstjóri og nú sem forstöðumaður.  

Það var ekki ætlun mín að vera svona lengi í öldrun og hef ég oft fengið spurninguna „ertu ennþá á Hrafnistu“ þegar ég hitti starfssystur mínar sem ég útskrifaðist með úr hjúkrun.

Það að ég er enn starfandi á Hrafnistu sýnir að ég hef yndi af umgangast þennan aldurshóp sem býr hér og það starfsfólk sem ég hef unnið með í gegnum tíðina.

Mér finnst ég njóta forréttinda að hafa vaknað á hverjum degi síðastliðin 16 ár og hlakkað til að fara í vinnuna, ég hef alltaf sagt að þann dag sem ég vakna og hugsa að ég nenni ekki í vinnuna er sá dagur sem ég þarf að hætta og leita mér að öðru starfi.

Það sem hefur gefið mér mest í starfi mínu er umfram allt allar góðu stundirnar sem ég hef átt með fólkinu á Hrafnistu, góðu samtölin, húmorinn og hláturinn. Flestir ef ekki allir verða minna sjálfbjarga með aldrinum en fólk er svo ólíkt og þurfum við að þekkja hvern og einn einstakling á bak við þann aldraða.

Sumir hjúpa sig með harðri skel og við þurfum að hafa meira fyrir því að kynnast þeim, en þegar við komumst inn fyrir skelina og finnum traustið og hlýjuna þá er það besta tilfinning í heimi. Sumir eiga líka erfitt með að sætta sig við að þurfa meiri hjálp og hafna hjálpinni og það brýst út jafnvel með reiði sem er alveg skiljanlegt þegar manneskja sem hefur verið sjálfbjarga allt sitt líf finnur vanmátt sinn. En þegar maður finnur réttu leiðina að manneskjunni þá er það óborganleg tilfinning.

Að heyra orð eins og „það er svo gott að þú komst“ og að geta gert daginn aðeins auðveldari fyrir einhvern er notaleg tilfinning.

Að geta verið til staðar fyrir einhvern sem sýnir það með svipbrigðum eins og brosi eða vellíðunarsvip hvað hann er þakklátur að þú haldir í hendina á honum þó hann geti ekki tjáð það með orðum.

Það er mikilvægt að fá að vera sú manneskjan sem finnur réttu orðin til að róa hinn óörugga og lina sársauka þeirra sem finna til.

Margt hefur gerst í öldrunarmálum á síðustu árum, aldur þeirra sem koma inn á hjúkrunarheimili er orðinn meiri og fólk kemur inn veikara en áður fyrr. Íbúarnir okkar þurfa orðið meiri aðstoð og kröfur frá aðstandendum eru orðnar meiri sem þýðir að meira álag er á starfsfólkið en áður fyrr. Við þurfum ávallt að hafa í huga að íbúarnir búa ekki á vinnustaðnum okkar heldur vinnum við inn á heimili þeirra.

Við dettum oft í þann gírinn að við flýtum okkur í morgunverkin, við flýtum okkur á matmálstímum, við hlaupum framhjá gamla eirðarlausa manninum á ganginum og erum alltaf í kappi við tímann til að klára verkin fyrir ákveðinn tíma. Stundum þurfum við samt að gefa okkur tíma til að staldra aðeins við og hugsa um hvað er það sem er mikilvægast í öllu þessu en það er líðan og lífsgæði íbúans okkar. Ég er ekki að gera lítið úr öllum verkunum sem þarf að gera en það myndi kannski minnka óróleika og vanlíðan hjá mörgum ef við myndum stundum gefa okkur aðeins meiri tíma í tjáskipti og hlusta á hvort á annað og á íbúana okkar. Stundum nægir létt snerting á öxl, faðmlag eða bros og að sýna væntumþykju og skilning með tjáningu.

Ég hef lært það í gegnum tíðina að það að brosa og vera jákvæður og líta á mál sem koma upp á ekki sem vandamál heldur verkefni til að leysa getur létt manni lífið mikið.

Mitt lífsmottó er að reyna að vera besta útgáfan af sjálfri mér á hverjum degi og hafa orðin „eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt“ að leiðarljósi í starfi mínu og einkalífi.

Njótið helgarinnar og verið góð við hvert annað

Eins og skáldið sagði smælaðu framan í heiminn og þá mun heimurinn smæla framan í þig.

 

Valgerður K. Guðbjörnsdóttir

Forstöðumaður

Hrafnistu Sléttuvegi

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur