Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 23. nóvember 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 23. nóvember 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Starfsafmæli í nóvember

Nú í nóvember eiga nokkrir úr okkar frábæra starfsmannahópi formleg starfsafmæli. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Mathias Vieweger og Sigríður Jónsdóttir, bæði á Sól- og Mánateig í Reykjavík, Anna Maria Antolek í ræstingu í Hafnarfirði, Snæbjört Sif Jóhannesdóttir í Kópavogi og Guðbjörg Garðarsdóttir og Magdalena Ostrowska, báðar á Nesvöllum.

Síðast en ekki síst er það Hrönn Ljóstdóttir, forstöðumaður okkar í Garðabæ, sem nú hefur starfað í 30 ár hjá Hrafnistu!

Við óskum þeim öllum hjartanlega til hamingju með áfangann og þökkum kærlega fyrir tryggðina við Hrafnistu. Öll fá þau afhentar viðeigandi starfsafmælisgjafir frá Hrafnistu.

 

Áhugavert málþing á þriðjudaginn – Hvar á ég heima?

Mig langar til að vekja athygli ykkar á forvitnilegu málþingi á vegum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) á Hótel Reykjavík Natura á þriðjudaginn (27. nóvember) kl. 13.30. Þar ræðum við spurningar eins og er það rétt stefna að ungt fólk sem ekki getur búið sjálfstætt, flytjist á hjúkrunarheimili fyrir aldraða og búi þar, jafnvel áratugum saman? Eiga allir að geta búið á hjúkrunarheimilum óháð þjónustuþörf og sjúkdómsástandi og hver eru þolmörk aldraðra íbúa heimilanna? Hjúkrunarheimili landsins eru ekki lengur skilgreind sem heimili eingöngu fyrir aldraða veika einstaklinga, 67 ára eða eldri sem ekki geta búið sjálfstætt, heldur einnig ungt fólk óháð aldri og sjúkdómsgreiningu. Að margra mati eru öldrunarheimilin ekki heppilegasta búsetuúrræðið fyrir ungt fólk sem ekki getur búið sjálfstætt nema í algjörum undantekningartilfellum. Til þess eru hagsmunir, þarfir, vonir og þrár yngra fólks of ólíkar þeim sem aldraðir íbúar hjúkrunarheimilanna bera í brjósti auk þess sem spurningin um réttindi og þolmörk aldraðra á heimilunum verður mjög áleitin. Meðalaldur íbúa hjúkrunarheimilanna er í dag um 85 ár og þjónusta þeirra er sérhæfð að öldruðum. Í dag búa tæplega 200 manns yngri en 67 ára á hjúkrunarheimilum, þar af all nokkrir sem ekki hafa náð fimmtugsaldri. Fyrir liggur að öldruðu veiku fólki í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými fjölgar hratt og biðlistar eru að lengjast. Samkvæmt upplýsingum Embættis landlæknis biðu að meðaltali 411 manns eftir hjúkrunarrými í september, 20% fleiri en í sama mánuði 2017 þegar 342 voru á biðlista. Á málþingiinu verður fjallað um ýmsar hliðar og áskoranir sem blasa við á hjúkrunarheimilunum með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur með fjölgun á alvarlega veiku ungu fólki á hjúkrunarheimilum enda eru hagsmunir kynslóðanna misjafnir og ólíkir. Dagskrá málþingsins má sjá nánar í auglýsingu hér á heimasíðunni, undir „fréttir“.

 

Innleiðing Workplace gengur vel

Í byrjun nóvember innleiddi Hrafnista notkun Workplace sem er samskiptamiðill fyrir vinnustaði og byggir á sömu eiginleikum og viðmóti og feisbúk. Tilgangurinn með Workplace á Hrafnistu er að auka flæði upplýsinga og þekkingar, styrkja samvinnu og skilvirkni, færa starfsfólk nær hvort öðru og efla starfsandann á vinnustaðnum auk þess að uppfylla betur reglur tengdar persónuverndarmálum.

Innleiðingin hefur almennt gengið mjög vel. Nú hafa 1.280 einstaklingar fengið boð inn á Workplace og tæplega 70% þeirra hafa stofnað sér aðgang. Raunhæft markmið er að 80% skrái sig inn og erum við nokkuð nálægt því nú þegar, sérstaklega í ljósi þess að það eru aðeins rétt rúmar tvær vikur síðan Workplace fór í lofið. Í þessari viku hefur verið unnið að því að koma þeim inn sem eru ekki með tölvupóst eða rangan tölvupóst skráðan í launakerfi. Þessi aðilar munu fá aðgangskóða sem þeir nota til innskráningar.

Í dag er búið að stofna um 150 hópa inn á Workplace, bæði vinnutengda og félagaslega og eru þeir margir mjög virkir meðal notenda. Ef notkunartölur eru skoðaðar, þá erum við yfir öllum fyrirfram ákveðnum markmiðum Workplace fyrir utan liðinn „skráðir notendur“ en það skrifast ennþá á að þeir netfangalausu eru ekki allir komnir inn. Svo dæmi séu tekin þá eru 90% notenda okkar virkir í síma-appinu en markmið Workplace er að 60% notenda noti appið. Markmið Workplace er að það komi 150 innlegg í hópa á viku en við erum með 340 innlegg á viku að meðaltali. Workplace-ið er því að virka vel og margar deildir farnar að gefa út dagsetningar hvenær hefðubundum facebook-síðum deildanna verður alfarið lokað, eins og er markmiðið að gera í öllum tilvikum, fyrr en seinna.

 

Uppfært skipurit Hrafnistu

Stjórn Sjómannadagsráðs hefur nú samþykkt uppfært skipurit Hrafnistu. Skipurit okkar er mikilvægur þáttur í því að hafa boðskipti og skipulag með skýrum og markvissum hætti. Í svo stóru fyrirtæki sem við erum, geta verið breytingar á skipulagi og stjórnendum öðru hverju. Það er því mikilvægt að uppfæra skipuritið með reglubundnum hætti og alveg kominn tími á að gera það núna, eftir allnokkrar skipulagsbreytingar sem tóku gildi í október.

Nýtt skipurit mun birtast inn á heimasíðunni okkar innan skamms.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur