Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 12. október 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 12. október 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Bleiki dagurinn er á Hrafnistu í dag!

Í dag, föstudaginn 12. október, höldum við Bleika daginn hátíðlegann á öllum Hrafnistuheimilunum rétt eins og víða í samfélaginu. Líkt og undanfarin ár leggja íbúar og starfsfólk sitt af mörkum til að gera daginn sem hátíðlegastann en dagurinn er haldinn til stuðnings Krabbeinsfélaginu í baráttunni gegn krabbameini hjá konum.

Búið er að færa heimilin í bleikan búning með því að skreyta með ýmsu bleiku. Að sjálfsögðu höldum við svo upp á Bleika daginn með formlegum hætti með því að hvetja heimilisfólk og starfsfólk á Hrafnistu til að taka þátt og klæðast einhverju bleiku í dag – og svo skemmtilega vill til að það gera flest allir. Kærar þakkir fyrir að taka þátt.

Ég vil endilega hvetja ykkur til að njóta dagsins og verið dugleg að senda myndir frá Bleika deginum til Huldu S. Helgadóttur sem heldur utan um heimasíðu Hrafnistu.

 

Framkvæmdir við eldhús í Reykjavík

Stjórn Sjómannadagsráðs hefur nú formlega samþykkt að eldhúsið við Hrafnistu verði stækkað á næstu mánuðum. Eins og þið sjálfsagt flest vitið rekur Hrafnista í dag tvö eldhús. Annað er á Nesvöllum og eldar það fyrir Nesvelli, Hlévang og fleiri aðila í Reykjanesbæ. Hitt eldhúsið okkar er á Hrafnistu í Reykjavík og sér það um eldun fyrir hin Hrafnistuheimilin fjögur og er eitt umfangsmesta eldhús sinnar tegundar hér á landi. Það er þó komið að þolmörkum og mikilvægt að stækka það og endurnýja tækjabúnað til að geta mætt nýjum verkefnum eins og Sléttuvegi sem opnar í lok næsta árs og stækkun hjá okkur í Kópavogi, sem vonandi verður sem fyrst. Þetta eru miklar framkvæmdir og byggt verður við húsið út á bílastæðið við núverandi eldhús (þar sem ruslagámar eru nú) auk þess sem núverandi eldhúsaðstöðu verður gjörbrett og hún endurnýjuð. Búast má við að verkefnið taki alls um 10 mánuði.

Nú verður unnið hratt og vel að því að ljúka við lokahönnun og undirbúning verkframkvæmdarinnar. Þar eru ýmis mál sem Óli kokkur og hans fólk þarf að leysa. Meðal annars er ekki ólíklegt að elda þurfi matinn tímabundið annars staðar meðan framkvæmdirnar eru í hámarki. Það verður þó allt kynnt tímanlega og vel og rækilega þegar búið er að finna út úr þeim málum, en markmiðið verður alltaf að reyna raska daglegu lífi íbúa sem minnst.

 

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu mótmæla niðurskurði til hjúkrunarheimila

Félagsaðilar í Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) koma saman til félagsfundar á Hrafnistu í Reykjavík í dag kl. 14 til að ræða þá alvarlegu stöðu sem framundan er í rekstri fjölmargra heilbrigðisfyrirtækja og stofnana víða um land sem boðuð er í framlögðu fjárlagafumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár. 

Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 boðar ríkisstjórnin áframhaldandi niðurskurð á greiðslum til flestra aðildarfélaga SFV með sama hætti og þau hafa staðið frammi fyrir undanfarin ár, ekki síst á yfirstandandi ári. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar stendur einnig til að skerða greiðslurnar enn frekar árin 2020 og 2021, að minnsta kosti. Standi þessi ákvörðun ríkisstjórnar í meðförum Alþingis í umræðum um fjárlagafrumvarpið verður niðurskurðurinn meiri árin 2020 og 2021 heldur en á yfirstandandi ári og fyrirsjáanlegur er á næsta ári. Þetta kemur á óvart þar sem í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er meðal annars sérstaklega minnst á rekstrargrunn hjúkrunarheimila. 

Þrátt fyrir boðaða aukningu á framlögum til heilbrigðiskerfisins er augljóst af lestri frumvarpsins að sú aukning er að langstærstum hluta ætluð Landspítala og opinberum heilbrigðisstofnunum. Í frumvarpinu er á hinn bóginn gert ráð fyrir að skera áfram niður rekstrarframlög til hjúkrunar -, dvalar -, og dagdvalarrýma þótt ætlunin sé að fjölga slíkum rýmum. Vísbendingar eru um að það viðbótarfjármagn hafi verið vanreiknað auk þess sem ríkisvaldið hefur lagt ýmsar nýjar og fjárhagslega íþyngjandi kröfur á aðildarfélög SFV undanfarin misseri án þess að kröfurnar hafi verið fjármagnaðar af hálfu ríksins. Vegna þeirrar stöðu hafa viðræður SFV við Sjúkratryggingar um nýjan rammasamning fyrir dagdvalir siglt í strand en samningafundir hafa ekki verið haldnir síðan í lok mars. Rammasamningur um hjúkrunar – og dvalarrými rennur út um áramótin og ganga viðræður um framlengingu samningsins mjög hægt en þessi samningur er langstærsti samningur í sögu Sjúkratrygginga.  Vonandi sjá alþingismenn sóma sinn í að breyta þessu en búast má við einhverri fjölmiðlaumfjöllun næstu daga um þessi mál.

 

Erlendir starfsmenn mikilvægir í þjónustu Hrafnistu

Mikil umræða hefur verið um erlenda starfsmenn hér á landi undanfarið en starfsfólk af erlendu bergi brotinn er nú orðið yfir 10% af heildarfjölda á íslenskum vinnumarkaði. Umræðan hefur oft á tíðum verið mjög neikvæð og jafnvel gefið í skyn að mörg fyrirtæki fari illa með erlent starfsfólk sitt. Auðvitað bregður manni mjög að sjá þessa umfjöllun og allir hljóta að fagna því að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar hratt og vel gegn þeim fyrirtækjum sem ekki fara að lögum.

Fjöldi starfsmanna af erlendu bergi brotinn starfar hjá okkur á Hrafnistuheimilunum sem mikilvægur þáttur í þjónustunni okkar. Við erum þó í hópi þeirra hjúkrunarheimila sem gera það að skilyrði að fólk í umönnunarstörfum geti talað sæmilega íslensku við íbúanna okkar sem kannski lækkar hlutfalllið eitthvað í samanburði við önnur hjúkrunarheimili. Í mannauðsstefnu Hrafnistu segir:

„Starfsmönnum er ekki mismunað eftir kyni, aldri, kynþætti eða öðrum þáttum við ráðningu, í starfi eða öðrum samskiptum við Hrafnistu“.

Þessu höldum við auðvitað í heiðri hér eftir sem hingað til.

Til fróðleiks tók launadeildin saman fyrir mig fjölda erlendra starfsmanna hjá okkur. Niðurstaðan er um 19% (233 af 1.192). Þar sem ekki er skráð þjóðerni starfsfólks í kerfið okkar vitum við ekki frá hve mörgum löndum starfsfólk er hjá okkur (enda er það svo sem aukaatriði) en skiptingin milli heimila er frá 3,4% upp í 30%.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur