Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 6. febrúar 2015

Ágæta samstarfsfólk,
Eins og kynnt var nokkru fyrir jól urðu nokkrar breytingar á skipulagi yfirstjórnar Hrafnistu þann 1. febrúar s.l.
Fram hefur komið að Alma Birgisdóttir hjúkrunarforstjóri hefur óskað eftir að láta af störfum í apríl, eftir rúmlega þriggja áratuga farsælan starfsferil hjá Hrafnistu. Einnig hefur Soffía S. Egilsdóttir, framkvæmdastjóri félags- og þjónustusviðs óskað eftir tilflutningi úr stjórnunarstarfi, en Soffía hefur einnig átt langan og farsælan feril í starfi á Hrafnistu. Alma mun vinna að nokkrum sérverkefnum næstu mánuðina áður en hún kveður okkur alveg en Soffía færist nú yfir til mannauðs- og fræðsludeildar og verður starfsmaður þar.
Til grundvallar breytingum á skipuritinu liggur sú viðvarandi áskorun að nýta ávallt sem best þá fjármuni sem Hrafnistuheimilunum eru skammtaðir á hverjum tíma, íbúum og starfsfólki öllu til heilla. Með nýju skipuriti hyggjumst við ná því markmiði með enn meiri skilvirkni í skipulagi og stjórnun ásamt markvissari og skýrari ferlum í starfseminni í heild. Meðal annars er skilgreining á stjórnendahópi Hrafnistu þrengd verulega þannig að í þeim hópi hefur verið fækkað nokkuð og einnig fækkar um einn stjórnanda í yfirstjórn Hrafnistu.
 
Forstöðumenn verða daglegir stjórnendur
Einn af stærstu þáttum breytinganna er að forstöðumönnum heimilanna í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjanesbæ, verður hverjum fyrir sig, falinn víðtækari dagleg stjórnun og almenn ábyrgð á rekstri heimilanna. Heyra forstöðumenn heimilanna nú beint undir forstjóra í stað hjúkrunarforstjóra áður. Jafnframt tilheyrir allt starfsmannahald á hverju heimili nú beint undir forstöðumenn þess og bætast þar við hjúkrunarþjónustu og ræstingu (sem tilheyrðu áður forstöðumönnum) starfsfólk iðjuþjálfunar og félagsstarfs, sjúkraþjálfunar, borðsala og húsvörslu auk starfsemi verktaka á borð við hárgreiðslu, fótsnyrtingu o.fl.
 
Heilbrigðissvið stofnað
Annar stór þáttur breytinganna er stofnun nýs sviðs; Heilbrigðissviðs. Heilbrigðissvið er stofnað með sameiningu tveggja sviða: hjúkrunarsviðs og félags- og þjónustusviðs og fækkaði framkvæmdastjórum sviða því um einn. Heilbrigðissvið, sem gengur þvert á öll okkar heimili, hefur það hlutverk að sinna faglegri stoðþjónustu við almenna heilbrigðisþjónustu okkar. Það er gert með faglegri samræmingu og samþættingu í starfsemi faggreina heilbrigðisþjónustu, sem fram fer á Hrafnistuheimilunum. Hlutverk sviðsins er ennfremur að stýra og halda utan um starf gæða- og umbótahópa, RAI-mál, sýkingavarnir og fleira. Auglýst var eftir nýjum framkvæmdastjóra sviðsins og eru ráðningamál á lokastigum.
 
Fagstéttir virkjaðar betur sem ráðgefandi aðilar um stefnu Hrafnistu
Skipulagsbreytingarnar hafa ennfremur það markmið að virkja betur fagráð einstakra fagstétta sem starfa á Hrafnistuheimilunum. Þar er m.a um að ræða fagráð hjúkrunar, lækninga, sjúkraþjálfunar, iðjuþjálfunar og félagsstarfs og fleira, sem verða formlega stofnsett á næstunni. Með nýju skipuriti hefur mikilvægi hlutverk fagráðanna verið aukið, þar sem þau hafa nú fengið leiðbeinandi hlutverk í mótun stefnu Hrafnistu í viðkomandi málaflokkum. Markmið þessara breytinga er m.a. að tryggja að faglegum vinnubrögðum sé viðhaldið eins og best verður á kosið en einnig að auka enn frekar hið nána samstarf sem fagstéttir á Hrafnistu þurfa að eiga til að unnt sé að tryggja meginmarkmið Hrafnistu um hámarkslífsgæði íbúa heimilanna og þeirra sem þangað sækja þjónustu.
 
Rekstur, stjórnun og fjármál tilheyra rekstrarsviði
Hitt stoðsviðið í skipuriti okkar hefur það hlutverk að veita rekstrarlegan og fjármálalegan stuðning við starfsemi heimilanna. Nafn sviðsins hefur nú verið stytt í rekstrarsvið. Harpa Gunnarsdóttir hefur stýrt sviðinu og mun gera  áfram. Þar verða í raun litlar breytingar. Áfram eru nokkrar stoðþjónustudeildir á sviðinu s.s. mannauðsmál og fræðsla, eldhús, bókhald og launamál og fjármálastjórnun (áætlunargerð og eftirfylgni).
 
Verkefnisstjóri rekstrar- og innkaupa
Í vor verður svo ráðið í nýtt starf sem mun hafa umsjón með ýmsum rekstrarþáttum á rekstrarsviði. Þar má til dæmis nefna innkaup, birgðahald, útboð og rekstrarráðgjöf til forstöðumanna og annarra stjórnenda. Er markmiðið að auka enn frekar nýtingu þeirra fjármuna sem varið er til viðkomandi málaflokka, en þarna eigum við ennþá þónokkuð inni í hagræðingu.
 
Gæða- og fræðsludeild skipt í tvennt.
Af öðrum breytingum sem gerðar hafa verið má nefna að gæða- og fræðsludeild hefur verið skipt upp í tvo hluta. Hefur gæðahluti sviðsins verið færður undir heilbrigðissvið en fræðsluhlutinn sameinaður mannauðsmálum. Gæða- og fræðslustjóri flyst inn í hið nýja heilbrigðissvið og fær starfið titilinn gæðastjóri.
 
Framkvæmdastjórn Hrafnistu heitir nú Framkvæmdaráð
Samhliða breytingunum hefur nafnið „framkvæmdastjórn Hrafnistu" verið lagt niður. Í stað þess verður til „framkvæmdaráð Hrafnistu" og í því sitja: forstjóri, fjármálastjóri og framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs og forstöðumenn heimila. Ástæða breytinga á nafngiftinni er að notkun orðsins „framkvæmdastjórn" vísar beint í lög um heilbrigðisstofnanir en þar er skipan framkvæmdastjórnar nákvæmlega skilgreind. Þar sem hjúkrunarheimili eru undanþegin þessu ákvæði styðjumst við aðeins við það í okkar skipulagi og vísum til laganna með notkun orðsins „framkvæmdaráð" en völdum ekki ruglingi með því að nota orðið framkvæmdastjórn lengur.
 
Nýtt skipurti Hrafnistuheimlanna mun bráðar birtast hér á heimasíðunni en það gildir frá og með 3. febrúar 2015.
Þetta hljómar sjálfsagt að einverju leiti ruglingslegt fyrir einhver ykkar en ég er sannfærður um að þessi breyting á eftir að gera góða Hrafnistu ennþá betri!
 
Góða helgi!
Pétur

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur