Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 13. apríl 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 13. apríl 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Nýlega birti Morgunblaðið grein eftir mig og Eybjörgu, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu undir heitinu „Getum við virkilega ekki gert betur?”

Sem betur fer geta flestir þeirra í samfélaginu sem þurfa stöðuga og mikla þjónustu/umönnun, búið sjálfir á eigin heimili. Þó eru undantekningar á því og þá verður samfélagið að geta boðið þessum einstaklingum upp á sómasamlega lausn. Undanfarin ár hafa þessir einstaklingar verið í æ ríkara mæli settir inn á hjúkrunarheimili sem fyrst og fremst eru hugsuð með þarfir aldraðra í huga. Nú er fyrirhugað að dagdvalir aldraðra verði nýttar á sama hátt. Af ýmsum ástæðum er þetta ekki góð þróun, sérstaklega ekki fyrir yngra fólk - sjá nánar í greininni.
Við hvetjum stjórnvöld til úrbóta!

Föstudagsmolarnir í dag eru þessi grein.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Getum við virkilega ekki gert betur?

Fyrir nokkrum árum var lögum um málefni aldraða breytt á þann veg að einstaklingar sem eru yngri en 67 ára geta nú búið á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða, enda hafi þeir verið metnir í þörf fyrir slíka dvöl af færni- og heilsumatsnefnd. Í dag eru um áttatíu einstaklingar yngri en 67 ára búsettir á hjúkrunarheimilum. Það geta verið einstaklingar í sérstökum geðhjúkrunarrýmum eða einstaklingar með heilabilun. Hluti þessa hóps er ungt fólk með einhvern sjúkdóm eða hreyfihömlun sem gerir það að verkum að viðkomandi þurfa umtalsverða umönnun og geta ekki búið sjálfstætt þrátt fyrir að andleg færni sé í góðu lagi.

Eðli málsins samkvæmt getur þetta unga fólk búið á hjúkrunarheimilum árum og jafnvel áratugum saman. Þó að mjög æskilegt sé að viðkomandi einstaklingar fái búsetu þar sem veitt er þjónusta við hæfi veltum við því mjög alvarlega fyrir okkur hvort hjúkrunarheimili fyrir aldraða séu rétta búsetuúrræðið fyrir þennan hóp sem hefur sínar þarfir, þrár og væntingar um lífsgæði sem að vonum eru allt aðrar heldur en almennra íbúa hjúkrunarheimila þar sem meðalaldurinn er um 85 ár. Þarfir hópsins eru oft aðrar en þær sem hjúkrunarheimili geta sinnt þar sem þjónustan er sérhæfð að þörfum og áhuga fólks sem er vel yfir áttrætt. Ungir einstaklingar hafa almennt mun meiri þörf fyrir samneyti við aðra; vilja komast í bíó, á kaffihús eða námskeið og hafa annan tónlistarsmekk og matarsmekk og vilja njóta samveru með sínum jafningjum og jafnöldrum.

Einstaklingur sem flyst í hjúkrunarrými í dag sökum öldrunar og afleiðinga sjúkdóma er í allt annarri stöðu. Kröfur til hjúkrunarheimila, skyldur þeirra og skipulag miðast við þennan hefðbundna heimilismann, hinn aldraða einstakling. Ungt fólk á öldrunarstofnun er í röngu umhverfi, röngu úrræði og þjónustan er oft á tíðum að takmörkuðu leyti við þeirra hæfi. Fyrir utan þessar borðleggjandi staðreyndir er spurning hvort réttlætanlegt sé að fækka rýmum fyrir aldraða með þeim hætti sem þetta fyrirkomulag hefur í för með sér. Nægur er vandinn fyrir vegna skorts á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða sem fara mun vaxandi á næstu árum. Auðvitað á samfélag okkar að sjá sóma sinn í því að bjóða ungu fólki með mikla þjónustuþörf sérstök búsetuúrræði sem hentar betur en almenn hjúkrunarheimili fyrir aldraða, ef viðkomandi einstaklingar geta á annað borð ekki fengið þjónustu heim til sín

Nú hefur heilbrigðisráðherra boðað lagafrumvarp sem gerir ráð fyrir að gildandi aldursmörk, sem einskorða þjónustu dagdvalarrýma við aldraða, verði numin úr gildi og farið verði að bjóða yngra fólki í dagdvalir sem hingað til hafa verið ætlaðar öldruðum. Enda þótt hið nýja fyrirkomulag henti örugglega í einhverjum tilvikum væri samt ánægjulegra að sjá það boðað að setja eigi á fót sérstakar dagdvalir fyrir þá sem yngri eru. Við höfum því miður ekki orðið þess áskynja að slíkt standi til. Líkt og með hjúkrunarheimilin væri slík starfsemi talsvert ólík núverandi almennum rekstri dagdvalar þar sem biðlistar aldraðra hafa lengst verulega á síðustu árum. Ungir einstaklingar sem væntanlegir eru í núverandi dagdvalir, fái frumvarp ráðherra brautargengi, verða í mörgum tilfellum í röngu úrræði stóran hluta lífsins þar sem erfitt er að bjóða bæði umhverfi og þjónustu sérstaklega við þeirra hæfi.

Í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Sjúkratrygginga Íslands segir: „Það stefnuleysi sem einkennir málaflokkinn hefur leitt til þess að áherslur fjárlaga hverju sinni, tímabundin átaksverkefni og úrlausn tilfallandi vandamála hafa mótað ákvarðanir um samninga um heilbrigðisþjónustu og þar með þróun heilbrigðiskerfisins“. Þetta einkenni stefnuleysis í málaflokknum má einnig heimfæra upp á fleiri reglugerðir og löggjöf sem sett hefur verið af hálfu stjórnvalda undanfarin ár. Nýr heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir að vinna við heildstæða stefnu í málaflokknum sé í gangi í ráðuneyti sínu og eru það mjög ánægjuleg tíðindi. Þeirri vinnu er hins vegar ekki lokið. Slík stefnumótun hefur ekki verið lögð fram og hefur ekki fengið þá rýningu og umræðu sem hún kallar á. Það liggur því ekki fyrir nein heildstæð stefna um hvert hlutverk hjúkrunarheimila og dagdvala í samfélaginu okkar eigi að vera til framtíðar litið eða hvort slík heimili séu þau úrræði sem við teljum ákjósanleg fyrir unga, veika einstaklinga. Á meðan þetta er staðan teljum við ótímabært að leggja fram stefnumótandi lagafrumvarp eins og það sem boðað hefur verið. Erum við sátt við þau úrræði sem ungu fólki verður boðið upp á nái frumvarpið fram að ganga? Á ungt, veikt fólk með mikla þjónustuþörf virkilega ekki betra skilið af velferðarsamfélaginu? Getum við ekki gert betur en þetta?

 

Pétur Magnússon,

formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

 

Eybjörg H. Hauksdóttir,

framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur