Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 6. apríl 2018 - Gestaskrifari er Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

Mikilvægi samvinnu

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) eru samtök fyrirtækja, félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem eru að meginstefnu til ekki ríkisfyrirtæki en veita heilbrigðisþjónustu á grundvelli greiðslna frá ríkinu. Samtökin voru stofnuð árið 2002 og eru því að verða 16 ára, en í árslok 2017 voru aðildarfélögin orðin 45. Meðal aðildarfélaga eru Hrafnistuheimilin, Grund hjúkrunarheimili, Krabbameinsfélag Íslands, SÁÁ o.fl. Greiðslur ríkisins til aðila innan SFV nema um 15-20% af heildarútgjöldum ríkisins til heilbrigðismála á ári. Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, hefur verið stjórnarformaður SFV síðan í febrúar 2016 og hafa samtökin aðsetur á Hrafnistu í Reykjavík.

SFV voru upphaflega stofnuð af þrettán fyrirtækjum (þ.á.m. Hrafnistu) aðallega í þeim tilgangi að spara tíma með sameiginlegri gerð kjarasamninga við stéttarfélögin. Stjórnendur fyrirtækjanna voru hins vegar mjög fljótir að átta sig á mikilvægi samvinnu á fleiri sviðum. Hvort sem um er að ræða hagsmunagæslu gagnvart hinu opinbera, eða verkefni á sviði gæðamála eða innkaupa þá er staðreyndin sú að allir græða á að vinna saman. Samstarf og samvinna aðildarfélaga innan samtakanna hefur því með tímanum færst yfir á fleiri svið og dýpkað.

Það er eitt af mínum uppáhaldsverkefnum að mynda vettvang fyrir samvinnu aðildarfélaganna og leiða saman fólk sem er í svipuðum störfum, að glíma við sömu áskoranir, en situr í sitthvoru horninu. Í dag eru starfandi sex vinnuhópar innan SFV og er hver vinnuhópur með ákveðið málefnasvið. Þetta eru persónuverndarhópur (sem í situr persónuréttarsérfræðingur frá SFV), innkaupahópur, faghópur hjúkrunarstjórnenda, velferðartæknihópur, mannauðshópur og launanefnd. Stundum verða til sérstök verkefni með nánara samstarfi innan vinnuhópsins (t.d. sameiginleg útboð innan innkaupahópsins), en í öðrum vinnuhópum eru fundir einkum nýttir til að ræða þau verkefni sem eru í gangi á hverjum tíma. Það er ótrúlega gaman að sjá hvernig margir fara á flug við það eitt að fá þennan vettvang til samtals við aðra sem eru í sömu sporum. Fundirnir auka tengslamyndun milli stofnana og minnka líkurnar á að margir eyði tíma í að finna upp hjólið. Þessi vettvangur er auðvitað sérstaklega mikilvægur fyrir minni einingar sem hafa ef til vill ekki mikið af sérhæfðri þekkingu innanhúss, en stærri aðildarfélög fá einnig mikið út úr þessum vinnuhópum. Ég sit stóran hluta af þessum fundum og mín tilfinning er sú að allir sem taka þátt í þessu samstarfi græði á því, enda er enginn svo fróður að hann geti ekki lært eitthvað af öðrum.

Ég rakst á skemmtilegt spakmæli sem hefur verið eignað Móðir Theresu, sem mér finnst ná vel utan um hugmyndafræði samvinnunnar:  I can do things you can not. You can do things I can not. Together we can do great things.

Það er alltaf pláss innan SFV fyrir víðtækari samvinnu, svo ef einhver lumar á hugmyndum um nýja vinnuhópa eða önnur samstarfsverkefni innan SFV er hægt að koma þeim á framfæri með tölvupósti á netfangið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Góða helgi!

 

Bestu kveðjur,

Eybjörg Hauksdóttir,

framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur