Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 2. mars 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 3. mars 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Bygging hjúkrunarheimilisins við Sléttuveg í útboð

Það er gaman að byrja föstudagsmolana á að segja frá því að nú í vikunni var auglýst útboð á uppsteypu og utanhússfrágangi hjúkrunarheimilis okkar við Sléttuveg sem ætlunin er að opna í lok næsta árs ef allt gengur upp. Undanfarnar vikur hafa staðið yfir miklar jarðvegsframkvæmdir á svæðinu sem eru undanfari þess að hægt sé að hefja sjálfa bygginguna. Framkvæmdir við uppsteypuna eiga að hefjast nú í vor og vera lokið 30. apríl 2019. Fyrir þá sem eru miklir tölu-nördar þá er hægt að fræða ykkur um það að áætlað er að í járnabindingu hússins fari 255.000 kíló og gluggar og hurðir séu alls 950 fermetrar svo dæmi séu tekin – sannarlega spennandi hvað það styttist í Hrafnistu nr. 7.

 

Skemmtileg heimsókn frá Færeyjum í gær

Í gær kom í heimsókn á Hrafnistu 9 manna hópur frá Klaksvík í Færeyjum. Þar voru á ferðinni nokkrir stjórnendur í sveitarfélaginu, meðal annars bæjarstjórinn, Jógvan Skorheim. Klaksvík er næststærsti bær Færeyja með um 6.000 íbúa. Þeir starfrækja lítinn spítala og hjúkrunarheimiliseiningar sem eru fyrir 8-28 manns hver. Sveitarfélagið hyggst reisa nýtt hjúkrunarheimili á næstunni og því þótti sniðugt að skoða hvernig við á Hrafnistu högum málum. Hópurinn heimsótti bæði Hrafnistu í Garðabæ og Reykjavík og leist mjög vel á starfsemina. Alltaf gaman að fá góða gesti í heimsókn.

 

Ráðstefna um iðjuþjálfun í öldrunarþjónustu – 5. apríl

Eftir hádegi þann 5. apríl nk. mun Hrafnista blása til opinnar ráðstefnu um iðjuþjálfun í öldrunarþjónustu. Okkur telst til að þetta sé fyrsta sérstaka ráðstefnan af þessu tagi sem haldin hefur verið hér á landi. Iðjuþjálfun hefur á síðustu árum gengt vaxandi hlutverki á hjúkrunarheimilum (og öldrunarþjónustu) en við hér á Hrafnistu höfum verið í fararbroddi hjúkrunarheimila á þessu sviði. Það er því vel við hæfi að við uppfyllum markmið okkar um að vera leiðandi aðili í öldrunarþjónustu, með því að blása til þessarar ráðstefnu sem fram fer í Menningarsal Hrafnistu í Hafnarfirði.

Ráðstefnan verður auglýst með formlegum hætti á næstunni.

 

Fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar – málþing 5. mars

Fjármálaumhverfi heilbrigðisþjónustunnar hefur verið mikið í umræðunni undanfarið en um fjórðungur ríkisútgjalda rennur til heilbrigðismála. Ekki síst hafa þessi mál verið ofarlega á baugi undanfarna daga eftir útkomu skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Sjúkratrygginga Íslands. „Það stefnuleysi sem einkennir málaflokkinn hefur leitt til þess að áherslur fjárlaga hverju sinni, tímabundin átaksverkefni og úrlausn tilfallandi vandamála hafa mótað ákvarðanir um samninga um heilbrigðisþjónustu og þar með þróun heilbrigðiskerfisins,“ segir m.a. í skýrslunni. Jafnframt kemur fram að samningar Sjúkratrygginga Íslands hafi ekki stuðlað að hagkvæmni eða skilvirkni í heilbrigðiskerfinu, heildstæða stefnu skorti um þjónustuna og nýting opinberra fjármuna til málaflokksins sé ekki næg.

Aðilar heilbrigðisþjónustunnar hafa margir gagnrýnt skort á greiningum á kostnaði við að mæta kröfum opinberra aðila um heilbrigðisþjónustu og af hverju sé ekki hægt að hafa greiðslur heilbrigðisþjónustunnar í samræmi við raunkostnað. Breytingar á fjárveitingum til heilbrigðismála milli ára virðast einnig á stundum vera dularfullt fyrirbæri sem a.m.k. fulltrúar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) fá sjaldan útskýrt með fullnægjandi eða eðlilegum hætti þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og mikil og tímafrek samskipti við opinbera aðila.

Vegna þessa blása Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) til málþings um fjármálaumhverfi heilbrigðisþjónustunnar mánudaginn 5. mars nk. á Icelandair Hótel Natura þar sem m.a. verður fjallað um fjármögnun heilbrigðiskerfisins og þær kröfur sem gerðar eru til heilbrigðisþjónustu landsmanna. Þingið hefst kl 13:30 og eru allir velkomnir. Aðgangur er ókeypis.

 

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur